Viðskipti innlent

Pálmi Haraldsson: „Þér kemur það ekki við“

Pálmi Haraldsson. Hann segir öruggt að stefnu á hendur sér í New York verði vísað frá.
Pálmi Haraldsson. Hann segir öruggt að stefnu á hendur sér í New York verði vísað frá.

„Þér kemur það ekki við. Hvernig dettur þér í hug að spyrja svona spurningar?" sagði Pálmi Haraldsson við fréttamann nú í morgun þegar óskað var eftir upplýsingum um hver hefði lánað honum 600 milljónir króna, en upphæðin var notuð sem trygging í sátt sem hann gerði við slitastjórn Glitnis til að koma í veg fyrir að eignir hans yrðu kyrrsettar, m.a Iceland Express og Astreus flugfélagið sem rekur vélar Iceland Express.

Mikið gengur á hjá Pálma þessa dagana en hann er meðal þeirra sem slitastjórnin hefur stefnt í New York til greiðslu skaðabóta. Pálmi telur öruggt að stefnu á hendur sér í New York-fylki verði vísað frá. Gögn málsins og fordæmi tryggi það, enda sé rétturinn hans megin. Hann segir að það sjáist glögglega af gögnum málsins að eina ástæðan fyrir því að honum sé stefnt sé sú að hann er vinur Jóns Ásgeirs, en Pálmi telur málatilbúnað slitastjórnarinnar fráleitan.

Þá hefur þetta verið gríðarlega kostnaðarsamt. „Þetta er ekkert gamanmál að standa í þessu. Hvað heldurðu að tíminn kosti hjá lögmanni í Bandaríkjunum? Svo fæst lögmannskostnaðurinn ekki greiddur af sækjandanum ef stefndu vinna málið. Átta menn sig á þessu? Það er gríðarlega erfitt fyrir okkur að verjast þarna, það virðist líka vera tilgangurinn hjá slitastjórninni. Ég get bara talað fyrir mína hönd, ég er ekki með sömu lögmenn og hinir, en þetta er gríðarlega kostnaðarsamt."

Hversu mikið er þetta? „Þetta eru engar smá upphæðir. Það segir sig sjálft," segir Pálmi en segist ekki hafa tekið það nákvæmlega saman.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×