Viðskipti innlent

ESA heimilar ríkisaðstoð til minni sparisjóða

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í gær að heimila ríkisaðstoð til minni sparisjóða á Íslandi og gildir heimildin í sex mánuði.

Í tilkynningu segir að Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Þórshafnar munu njóta góðs af þessari aðstoð. Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin til að leggja fyrir ESA áætlun um endurskipulagningu sérhvers þessara sparisjóða eigi síðar en 21. desember 2010.



ESA hefur nú samþykkt endurfjármögnun sem miðar að því að gera sparisjóðunum kleift að halda áfram starfsemi á fjármálamarkaði. Ráðstafanirnar fela í sér uppgjör á opinberum kröfum á hendur sparisjóðanna, en Seðlabanki Íslands eignaðist þessar kröfur vegna þrots Sparisjóðabanka Íslands hf.

Verður kröfum þessum, sem nema alls 8,3 milljörðum íslenskra króna (50 milljónum evra), að hluta breytt í eigið fé og/eða víkjandi lán. Þá eru kröfur að hluta færðar niður. Er fallist á að þar sé um að ræða óhjákvæmilegan þátt í heildarráðstöfunum til þess að mæta kröfum um eiginfjárhlutfall í samræmi við lágmarkskröfur Fjármálaeftirlitsins.

Loks er hluta krafna breytt í almenn lán til fimm ára með vöxtum sem taka mið af aðstæðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×