Viðskipti innlent

Enn samdráttur í verslun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaupmenn í Kringlunni geta ef til vill farið að brosa aftur í kampinn. Mynd/ Anton.
Kaupmenn í Kringlunni geta ef til vill farið að brosa aftur í kampinn. Mynd/ Anton.
Samdráttur var á milli ára í öllum tegundum verslunar í síðasta mánuði nema í raftækjaverslun og áfengisverslun, samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þá varð einnig samdráttur í áfengisverslun ef veltan er leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum. Mestur samdráttur var í skóverslun og húsgagnaverslun en dagvöruverslun dróst minnst saman.

Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að þrátt fyrir samdrátt virðist jafnvægi smám saman vera að nást í verslun. Almennt hafi dregið úr verðhækkunum á flestum vörutegundum og verðlækkun hafi orðið á sumum vörutegundum í júní frá mánuðinum á undan. Þetta eigi til dæmis við um verð á dagvöru sem lækkaði um 1,3% frá fyrra mánuði.

Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að ef marka megi nýja þjóðhagsspá ætti samdrætti í einkaneyslu nú að vera lokið. Spár geri ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 0,1% á þessu ári og aukist um 3,4% á næsta ári. Samkvæmt því megi gera ráð fyrir að verslun fari smám saman að aukast á ný. Vísbendingar um að þessi spá geti gengið eftir sjáist meðal annars á því að kaupmáttarrýrnun hafi farið minnkandi og kaupmáttur sé nú 3,3% minni en á sama tíma í fyrra. Þá hafi orðið 2,7% raunsamdráttur í innlendri greiðslukortanotkun á tímabilinu janúar til maí síðastliðinn, sem sé mun minna en hafi verið undanfarið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×