Viðskipti innlent

Sprotafyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda í samstarf

Dr. Guðmundur Guðmundsson (PhD sameindalíffræði), framkvæmdastjóri vísinda og tækni Kerecis.
Dr. Guðmundur Guðmundsson (PhD sameindalíffræði), framkvæmdastjóri vísinda og tækni Kerecis.
Kerecis og ValaMed undirrituðu í dag samstarfssamning sem tekur m.a. til rannsókna á frumuvexti í mismunandi vefjum. ValaMed vinnur að þróun á lyfjanæmisprófum á krabbameinsfrumum en Kerecis vinnur að gerð stoðefna sem hámarka vöxt frumna t.d. í sárum.

„Það er ánægjulegt að leiða hesta þessara fyrirtækja saman. Vísindarannsóknir Kerecis snúa að þróun efna úr fiskipróteinum er laða til sín frumur og gera þeim kleyft að vaxa og dafna. ValaMed býr yfir tækni og þekkingu sem getur hjálpað okkur að meta virkni þeirra efna sem við erum að þróa,“ segir Dr. Guðmundur Guðmundsson (PhD sameindalíffræði), framkvæmdastjóri vísinda og tækni Kerecis í tilkynningu.

Starfsemi ValaMed er á sviði þróunar á lyfjanæmisprófum á krabbameinsvef. ValaMed er í samstarfi við hóp íslenskra og erlenda krabbameinslækna, skurðlækna og annarra vísindamanna um rannsóknir á verkun lyfja á krabbameinsfrumur. Næmniprófanir félagsins eru á þróunarstigi.

Kerecis fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins verða notaðar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á sköðuðum vef og eru unnar í náinni samvinnu við ýmsar heilbrigðisstéttir. Vörur og grunntækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og tækni félagsins er í einkaleyfaskráningu. Fyrstu vörur fyrirtækisins eru ætlaðar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og til meðhöndlunar á kviðslitum.

„Með samstarfi okkar við Kerecis mun reynsla okkar á frumugreiningum aukast ásamt því að nýting á tækjabúnaði félagsins mun batna,“ segir Dr. Finnbogi Rútur Þormóðsson (PhD taugalíffræði), Rannsóknarstjóri ValaMed ehf.

Bæði fyrirtækin voru stofnuð árið 2007 og er samstarfssamningur félaganna til eins árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×