Viðskipti innlent

LSS yfirtekur allan rekstur LSK

Stjórnir Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, LSS, og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, LSK, hafa staðfest samning sem undirritaður var hinn 18. janúar sl., um að LSS annist allan daglegan rekstur LSK frá 1. mars 2010 að telja.

Fjallað er um málið á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar segir að í þessu felst að LSS annast allt réttindabókhald, útreikning og útborgun lífeyris og hefur umsjón með öllu reikningshaldi fyrir sjóðinn, ásamt móttöku, vörslu og ávöxtun iðgjalda, sem og eignastýringu. Rekstur LSK verður þó áfram á kennitölu og undir nafni LSK.

Sérstök áhersla er lögð á að LSS veiti sjóðfélögum í LSK góða þjónustu, öruggar upplýsingar og traustar ráðleggingar. Útbúið verður sérstakt vefsvæði fyrir LSK á heimasíðu LSS.

Samningur þessi er sambærilegur samningum sem LSS hefur gert áður um rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkur­kaupstaðar, Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar og Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar en allir þessir lífeyrissjóðir eru svokallaðir eftirmannsreglusjóðir og hefur þeim verið lokað fyrir nýjum sjóðfélögum frá miðju ári 1998.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×