Viðskipti innlent

Thor Data Center með 400 milljóna hlutafjáraukningu

Títan fjárfestingafélag ásamt núverandi hluthöfum og lykilstarfsmönnum hafa fjárfest í Thor Data Center fyrir um 400 milljónir kr.

Í tilkynningu segir að Títan fjárfestingarfélag muni eignast ríflega 33% hlut í Thor eftir hlutafjáraukninguna. Thor var stofnað af nokkrum reynslumiklum frumkvöðlum úr íslenska tölvugeiranum og hóf nýlega gagnavörslu fyrir norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software í gagnaveri sínu í Hafnarfirði.

Thor gagnaverið er í dag það gagnaver í heiminum sem veldur minnstri röskun á umhverfinu. Bæði er það vegna nýrrar gámatækni sem gagnaverið notar, en ekki síst vegna þess að það nýtir einungis endurnýjanlega orku frá íslenskum gufuaflsvirkjunum. Fyrirtækið hefur tryggt sér 3,2 megawatta raforku frá HS Orku á Suðurnesjum og ákvæði eru í samningnum um allt að 19,2 megawött ef þörf krefur. Thor er fyrsta gagnaverið af þessum toga sem tekið hefur verið í notkun á Íslandi.

Skúli Mogensen eigandi og stjórnarformaður Títans og Baldur Baldursson framkvæmdastjóri félagsins munu taka sæti í stjórn Thor .

„Hjá Thor Data Center er frábært starfsfólk sem byggt hefur upp mikla þekkingu á gagnaflutningum og stendur að okkar mati mjög framarlega á sínu sviði. Það verður mjög spennandi að taka þátt í uppbyggingu félagsins á næstu árum, „ segir Skúli Mogensen, eigandi Títan í tilkynningunni.

„Verkefni Thor Data Center og fleiri gagnavera hérlendis geta skapað þjóðinni miklar gjaldeyristekjur, sem er afar mikilvægt fyrir uppbyggingu atvinnulífsins alls. Hröð þróun er í gagnaversiðnaðinum um þessar mundir. Samningurinn við Opera Software sýnir glöggt að Thor Data Center er fyllilega samkeppnishæft við gagnaver annars staðar í heiminum. Hinir sjálfbæru orkugjafar sem hér eru munu skapa okkur mikla sérstöðu á næstu árum," segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Thor Data Center.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að fá til liðs við okkur svo öflugan og reynslumikinn fjárfesti. Að koma Skúla að fyrirtækinu styrkir Thor DC enn frekar. Reynsla hans mun án efa nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru," segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Thor Data Center.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×