Viðskipti innlent

Njótum nú þegar góðra kjara vestra

Hvíta húsið. Samtök atvinnulífsins telja í raun óþarft að hefja viðræður um fríverslunarsamning við Bandaríkin.
Hvíta húsið. Samtök atvinnulífsins telja í raun óþarft að hefja viðræður um fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Ekki er brýnt að óska eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA).  Sex þingmenn hafa lagt til að stofnað verði til viðræðna um slíkan samning. Í greinargerð segir að sóknarhagsmunir Íslands liggi í að tryggja greiðan aðgang að Bandaríkjamarkaði fyrir útflutningsvörur.

Í umsögn SA um tillöguna segir að ekki sé mikill þrýstingur frá útflutningsfyrirtækjum um gerð slíks samnings. Upplýsingar þar um eru fengnar úr utanríkisráðuneytinu. Þá hafi Íslandsstofa ekki fundið fyrir óánægju með viðskiptakjör á Bandaríkjamarkaði.

Bent er á að á grundvelli tollasamninga Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) njóti íslensk útflutningsfyrirtæki ágætis kjara á Bandaríkjamarkaði. Það gildi til dæmis um fiskafurðir.

SA segja líklegt að í fríverslunarsamningi myndu Bandaríkin leggja áherslu á gagnkvæm frjáls viðskipti með landbúnaðarafurðir, einkum mjólkurafurðir. Segjast samtökin ekki treysta sér til að leggja mat á hvernig íslenskur landbúnaður sé í stakk búinn til að standast þá samkeppni.

Að þessu og öðru sögðu telja SA ekki að brýn ástæða sé til að óska eftir gerð tvíhliða fríverslunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna.- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×