Viðskipti innlent

Reikningum Akureyjar enn ekki skilað

Árseikningaskrá hefur enn ekki borist einn einasti ársreikningur félagsins Akureyjar, sem stofnað var 2007.Fréttablaðið/stefán
Árseikningaskrá hefur enn ekki borist einn einasti ársreikningur félagsins Akureyjar, sem stofnað var 2007.Fréttablaðið/stefán
Eignarhaldsfélagið Akurey, sem á 60 prósent í lyfjafyrirtækinu Icepharma í gegnum dótturfélag, hefur enn ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2007, 2008 og 2009.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir skömmu að Bankasýsla ríkisins hefði skipað Kristján Jóhannsson, lektor í viðskiptafræði, í stjórn Arion banka þrátt fyrir að hann hefði sem eigandi og stjórnarformaður Akureyjar trassað að skila ársreikningum frá stofnun félagsins.

Kristján kom af fjöllum í samtali við Fréttablaðið 10. júní og sagði að vanskilin hlytu að vera handvömm. „Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að skila þessum reikningum ef þeir eru ekki inni," sagði Kristján.

Tæpum mánuði síðar hafa reikningarnir hins vegar enn ekki skilað sér eins og sjá má sé félaginu flett upp í ársreikningaskrá á vef Ríkisskattstjóra.

Elín Jónsdóttir sagðist í Fréttablaðinu 10. júní ekki sjá ástæðu til að endurskoða setu Kristjáns í stjórn Arion banka þrátt fyrir vanskilin. Athugun Fjármálaeftirlitsins á hæfi stjórnarmanna Arion er enn ekki lokið, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×