Viðskipti innlent

Gift slapp með skrekkinn - þarf ekki að greiða milljarð fyrir verðlaus bréf

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Fjárfestingafélagið Gift slapp með skrekkinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júní en þá sýknaði dómari félagið af milljarðskröfu sem Landsbankinn gerði í félagið vegna framvirkra samninga um hlutabréf í Landsbankanum.

Um var að ræða tæplega milljarðsgreiðslu fyrir 30 milljón hluti í Landsbankanum. Samningurinn var gerður í ágúst 2008 en greiða átti fyrir hlutina um miðjan nóvember. Þá voru hlutabréf Landsbankans orðin fullkomlega verðlaus.

Landsbankinn krafðist engu að síður greiðslunnar þar sem um framvirka samninga var að ræða.

Gift vildi meina að það hefði orðið slíkur forsendubrestur í kjölfar hrunsins að þeim bæri ekki að skylda til þess að greiða milljarðinn. Á þessi rök féllst dómari Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmdi Gift í hag.

Gift var stofnað upp úr Samvinnutryggingum sumarið 2007. Félagið fór í þrot eftir hrunið en eignir þess árið 2007 voru 60 milljarðar og eigið fé um 30 milljarðar. Gjaldþrotið var því gífurlegt.

Sveitarfélögin Djúpivogur og Vopnafjörður töpuðu talsvert á félaginu. Í febrúar á þessu ári sögðust þeir ætla að kæra stjórnendur fjárfestingarfélagsins Giftar til ríkissaksóknara fyrir umboðssvik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×