Viðskipti innlent

Kröfuhafar eignast Exista

Exista verður að fullu í eigu kröfuhafa félagsins.
Exista verður að fullu í eigu kröfuhafa félagsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur að beiðni stjórnar Exista veitt félaginu heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína. Ákvörðun stjórnar byggir á ítarlegri greiningu á stöðu félagsins og hvernig hámarka megi endurheimtur kröfuhafa.

Nefndir bæði innlendra og erlendra kröfuhafa ásamt stjórnendum og stjórn Exista unnið að nauðasamningi unnið að málefnum félagsins undanfarna mánuði og er nauðasamningur sem nú hefur verið lagður fram niðurstaða þeirrar vinnu.

Nokkuð er síðan bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir misstu eignarhlut sinn í Exista og yfirráð yfir félaginu, en skipt var um stjórn þess í lok apríl síðastliðins. Héraðsdómur Reykjavíkur veitt Exista í dag heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa en samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi Exista eignast kröfuhafar félagið að fullu, en undir samstæðunni eru félög eins og Síminn, VÍS og fjármögnunarfyrirtækið Lýsing. Þess ber að geta að eignir dótturfélaga Exista eru veðsettar að stórum hluta, en t.a.m á þýski bankinn Deutsche Bank veð í eignum Lýsingar. Félögin verða samt áfram rekin undir Exista-samstæðunni og hafa lánveitendur dótturfélaga verið upplýstir um endurskipulagningu Exista á öllum stigum þess.

Stærstu innlendu kröfuhafar Exista eru Arion banki og Landsbankinn, en skilanefnd Glitnis og skilanefnd Kaupþings, sem starfa í þágu erlendra kröfuhafa sinna, eru einnig stórir kröfuhafar eins og íslenskir lífeyrissjóðir.

Gert er ráð fyrir að Exista verði rekið áfram, en í nokkuð breyttri mynd. Magnús Magnússon, stjórnarformaður Exista, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekki lægi fyrir hvernig hluthafahópur Exista yrði eftir nauðasamningana því fyrst þyrfti að leiða til lykta deilur um kröfur á hendur félaginu, t.d vegna gagnkrafna sem félagið telur sig eiga á hendur skilanefnd Glitnis og Kaupþings vegna gjaldmiðlaskiptasamninga.

Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti þurfa sextíu prósent kröfuhafa að samþykkja nauðasamning og á næstu vikum verður leitað eftir samþykki kröfuhafa en búist er við að ferlið taki sex til átta vikur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur skipað Magnús Guðlaugsson hæstaréttarlögmann sem umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum Exista. Stjórn Exista sem er skipuð fulltrúum stærstu kröfuhafa félagsins var einhuga um að leita nauðasamninga. Nauðasamningsferlið mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur dótturfélaga Exista.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×