Viðskipti innlent

Reikna með umtalsverðum afgangi á vöruskiptum í ár

Reikna má með því að afgangur verði umtalsverður af vöruskiptum við útlönd í ár. Innflutningur mun verða með minnsta móti fram eftir ári vegna áframhaldandi samdráttar í einkaneyslu og fjárfestingu, a.m.k. ef miðað er við síðasta ár.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallar er um nýjar tölur Hagstofunnar um 10 milljarða afgang af vöruskiptunum í janúar.

Í Morgunkorninu segir að viðskiptakjör hafa batnað töluvert frá fyrri hluta síðasta árs vegna mikillar verðhækkunar á áli og nokkurrar hækkunar á verði sjávarafurða. Þá mun þjónustugeirinn væntanlega njóta áfram ávaxtanna af lágu raungengi krónu. Í því ljósi virðist spá Seðlabankans um 9,6% afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum í hlutfalli við landsframleiðslu á þessu ári nokkuð líkleg til að ganga eftir og að vöru- og þjónustujöfnuðurinn verði þannig aðeins hagstæðari en á síðasta ári en greiningin áætlar að hann hafi þá verið á bilinu 8-9%.

Afgangur hefur verið á vöruskiptum við útlönd allt frá því í ágúst 2008. Afgangurinn nú í janúar er samt aðeins meiri en hann hefur verið að meðaltali á þessum tíma. Hann var einnig meiri núna í janúar en hann hefur verið að meðaltali á mánuði núna síðasta hálfa árið.

Vöruskiptajöfnuðurinn er samt afar sveiflukenndur á milli mánaða og réttara að lesa í þróun til lengri tíma. Þegar litið er á 6 mánaða meðaltal vöruskiptajafnaðarins sést að hann hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði.

Rifja má upp að í fyrra var metafgangur af vöruskiptum við útlönd. Var þá að meðaltali 7,3 milljarðar kr. afgangur í mánuði hverjum eða 87,2 milljarða kr. yfir árið allt. Til samanburðar má nefna að 92,1 milljarða kr. halli var á vöruskiptum við útlönd árið 2007. Breytingin skýrist af því að árið 2007 var mikil þensla í íslensku efnahagslífi og krónan sterk en nú er umtalsverður samdráttur og krónan veik, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×