Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandsbanka nam 24 milljörðum króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagnaður Íslandsbanka á síðasta ári nam 23,9 milljörðum króna og er tekjuskattur ársins áætlaður 4,7 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall bankans nam 19,8%. Arðsemi eiginfjár var 30% en enginn arður verður greiddur til eigenda bankans, eftir því sem fram kemur í afkomutilkynningu frá bankanum.

Árið 2009 var fyrsta heila rekstrarár bankans og eru rekstrarniðurstöður ársins á undan því ekki samanburðarhæfar þar sem þær tóku einungis til 2 ½ mánaða tímabils. Ársreikningurinn er endurskoðaður og áritaður án fyrirvara af hálfu endurskoðenda bankans.

Birna Einarsdóttir bankastjóri segir að síðasta ár hafi einkennst af mikilli óvissu í efnahags- og atvinnulífinu og það hafi sett mark sitt á starfsemi bankans á árinu. „Undirliggjandi rekstur er traustur og hagnaður er af kjarnastarfsemi sem gerir bankann betur í stakk búinn til þess að takast á við krefjandi rekstarumhverfi. Bankinn greiðir opinber gjöld að upphæð 5.1 milljarðs króna í formi tekjuskatts og atvinnutryggingagjalds vegna rekstrarársins 2009," segir Birna Einarsdóttir í afkomutilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×