Viðskipti innlent

Ríkissjóður fékk bestu vaxtakjör frá júní í fyrra

Ekki liggja fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í gær. Það má þó leiða að því líkur að erlendir aðilar hafi þar verið fyrirferðarmiklir
Ekki liggja fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í gær. Það má þó leiða að því líkur að erlendir aðilar hafi þar verið fyrirferðarmiklir

Ríkissjóður má vel una við niðurstöðuna í ríkisvíxlaútboðinu sem haldið var í gærdag. Umframeftirspurn hefur ekki verið jafn mikil síðan í nóvember á síðasta ári og vaxtakjör ríkissjóðs í útboðinu nú eru þau bestu frá júní í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fjárfestar reyndust áhugasamir um ríkisvíxlaútboðið sem haldið var hjá Lánamálum ríkisins í gær. Alls námu tilboð í ríkisvíxlaflokkinn RIKV 10 0816 ríflega 37,7 milljörðum kr. að nafnverði. Ákveðið var að taka ríflega helmingi tilboðanna, eða 20 milljörðum kr. á 6,74% flötum vöxtum.

Eftir útboð gærdagsins hefur heildarstabbi útistandandi ríkisvíxla minnkað aðeins, þ.e. úr 78,0 milljörðum kr. í 76,6 milljarða kr. þar sem næstkomandi fimmtudag er ríkisvíxlaflokkur upp á 21,4 milljarðar kr. á gjalddaga.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í gær. Það má þó leiða að því líkur að erlendir aðilar hafi þar verið fyrirferðarmiklir í ljósi þess að þeir áttu um 73 milljarða kr. í ríkisbréfaflokknum sem var á gjalddaga í síðasta mánuði og hafa þeir orðið að ráðstafa því fé með einhverjum hætti.

Jafnframt voru erlendir aðilar stórtækir kaupendur í útboðinu á þeim ríkisvíxlaflokki sem er á gjalddaga næstkomandi fimmtudag. Þannig höfðu þeir upphaflega keypt ríkisvíxla fyrir 14,5 milljarða kr. í desemberútboðinu, eða sem nemur um 68% af seldum bréfum. Því er afar líklegt að erlendir aðilar hafi eignast stærstan hins nýja víxlaflokks eftir útboðið í gær, líkt og í undanförnum útboðum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×