Viðskipti innlent

Fá ekki 260 milljónir vegna vanlýsingar

Björgólfur Guðmundsson átti eignarhaldsfélagið ásamt syni sínum.
Björgólfur Guðmundsson átti eignarhaldsfélagið ásamt syni sínum.

Sex erlendum bönkum var synjað um kröfu í reikning í eigu þrotabús Samsonar eignarhaldsfélags ehf, sem var í eigu Björgólfsfeðganna. Ástæðan var vanlýsing bankanna en alls var að finna 1,6 milljón evrur á reikningnum eða um 260 milljónir króna.

Skiptastjóri synjaði bönkunum um kröfu í reikninginn og kærðu bankarnir þá ákvörðun til Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi í málinu í dag.

Bankarnir sem um ræðir eru, Commerzbank International S.A., Totalbanken A/S, Basisbank PFS A/S, Sparbank Vest, Eik Bank A/S og Bayerische Landesbank.

Bankarnir kröfðust viðurkenningar á veðrétti í innstæðu á reikningi Samson eignarhaldsfélags ehf.. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að upphafleg kröfulýsing bankanna væri ekki þannig úr garði gerð að ráða mætti af henni að bankarnir væru að krefjast viðurkenningar á veðrétti í innistæðunum reikningsins.

Heldur gaf hún beinlínis til kynna að bankarnir krefðust aðeins viðurkenningar á veðrétti þeirra í hlutabréfum félags Björgólfsfeðga í Landsbanka Íslands hf., en geymdi einnig ónákvæma og misvísandi tilvísun til skilgreiningar í veðsamningi, þar sem ekkert kom fram um að krafan væri tryggð með veði í umræddum bankareikningi.

Því var ákvörðun skiptastjóra staðfest af héraðsdómi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×