Viðskipti innlent

Greining: Verðbólgan hefur náð hámarki

Greining Íslandsbanka telur að verðbólgan hafi nú náð hámarki og að draga fari úr verðbólgu að nýju í næsta mánuði. Spáir greiningin nú 0,9% hækkun vísitölunnar á öðrum ársfjórðungi ársins, og á seinni helmingi ársins telur greiningin að hækkun vísitölunnar muni nema aðeins 1,1% gangi spáin eftir.

„Að okkar mati mun verðbólgan því hjaðna jafnt og þétt það sem eftir er árs og reiknum við með að hún verði komin niður undir 3,5% í lok árs," segir í Morgunkorni greiningarinnar.

Greint er frá því að í spá Seðlabankans sem kom út í janúar síðastliðnum gerði bankinn ráð fyrir að verðbólgan yrði 7,1% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Raunin varð hins vegar 7,4%. Án skattaáhrifa spáði bankinn 5,8% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi ársins en í raun var hún 6,1%.

„Er verðbólgan á fjórðungnum því aðeins yfir spá bankans en við teljum ólíklegt að það hafi umtalsverð áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar þegar hún kemur næst saman. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 5. maí næstkomandi," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×