Viðskipti innlent

Gistinætur á hótelum á svipuðu róli og í fyrra

Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru aðeins færri en í sama mánuði 2009, eða sem nemur 0,3%. Alls voru gistinætur ríflega 54,6 þúsund nú í janúar en höfðu verið tæp 54,8 þúsund á sama tíma 2009.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka en Hagstofan birti í morgun tölur um gistinætur á hótelum.

Í Morgunkorninu segir að þessa fækkun má einkum rekja til þess að gistinóttum erlendra ríkisborgara fækkaði um 1,0% á tímabilinu þar sem gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 2,3%. Er þetta annar mánuðurinn í röð sem aukning hefur orðið á gistinóttum Íslendinga en eins og kunnugt er hefur landinn sparað verulega við sig hótelgistingar undanfarin misseri.

Þessi 1% samdráttur á gistinóttum erlendra ríkisborgara kemur ekki á óvart enda voru erlendir ferðamenn 6% færri nú í janúar samanborið við sama mánuð í fyrra. Það var Hagstofan sem birti tölur um gistinætur og gestakomur á hótelum í janúar 2010 nú í morgun.

Samkvæmt Ferðamálastofu var árið 2009 stærsta ferðamannaár á Íslandi frá upphafi sem er afar áhugavert í ljósi þess að flest önnur lönd voru að upplifa samdrátt í greininni á sama tíma. Í heild fækkaði gistinóttum árið 2009 um 0,6% frá 2008 og má einkum rekja það til þess að gistinóttum Íslendinga fækkaði um 10% milli ára. Gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði á sama tíma um 2%, en þróun í þá átt var afar sjaldgæf meðal ríkja Evrópu og horfðu flest ríki fram á verulegan samdrátt hvað þetta varðar.

Þannig voru gistinætur á hótelum um 5,1% færri að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins samkvæmt hagstofu sambandsins og þar af nam samdráttur á gistinóttum erlendra ríkisborgara 9,1%. Mest var fækkunin í Lettlandi (23,3%) og þar á eftir í Litháen (20,4%). Þróunin var svipuð í Svíþjóð og hér á landi en þar fjölgaði gistinóttum um 0,1% milli ára og má það einkum rekja til þess að gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um 3,3%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×