Viðskipti innlent

BYR tapar milljörðum á lánum til stærstu eigenda

Tap BYRs-sparisjóðs vegna afskrifta á lánum til stærstu eigenda sinna nemur að minnsta kosti 13 milljörðum króna og er í fæstum tilvikum um persónulegar ábyrgðir að ræða. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld en fréttastofan hefur upplýsingar úr lánabók sparisjóðsins undir höndum.

Þorsteinn M. Jónsson, kenndur við Kók, skuldar um fjóra og hálfan milljarð í gegnum þrjú félög. Hann átti um rúmlega tvö prósent í BYR en ekkert hefur verið greitt af lánunum.

Í gegnum félög í sinni eigu skuldar Jón Þorsteinn Jónsson, kenndur við Nóatún, tæpa þrjá milljarða en hann átti um sex prósent í BYR í gegnum Saxhól.

Þá skulda félög í eigu Hannesar Smárasonar um einn milljarð króna en hann átti hlut í sparisjóðnum sem nam 3,4 prósentum.

Stoðir, sem áður hétu FL Group skulda um þrjá milljarða og herma heimildir RÚV að þá upphæð þurfi að afskrifa nánast að fullu. Stærstu eigendur hjá FL Group voru félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni.

Baugur skuldar einnig í BYR, um fjóra og hálfan milljarð. Að sögn RÚV þarf að afskrifa um þrjá og hálfan milljarð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×