Viðskipti innlent

Sakaði Fasteignaskrá Íslands um gerviverktöku

Í nýrri skýrslu gagnrýnir Ríkisendurskoðun það fyrirkomulag sem verið hefur á verktaktagreiðslum hjá Fasteignaskrá Íslands. Segir í skýrslunni að um svokallað gerviverktöku hafi verið að ræða hjá Fasteignaskrá en nú sé búið að kippa málinu í liðinn.

Samkvæmt frétt á vefsíðu Ríkisendurskoðunnar kemur fram í skýrslunni að á árunum 2000 til 2009 hafi Fasteignaskrá greitt fyrirtækinu Tölvuskjölum ehf. meira en 100 milljónir kr. fyrir verktakaþjónustu. Samkvæmt samningi milli þessara aðila skuli tiltekinn starfsmaður fyrirtækisins stýra tölvudeild stofnunarinnar, hafa vinnuaðstöðu þar og fastan viðverutíma.

Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta fyrirkomulag óeðlilegt og ber öll merki svokallaðrar gerviverktöku. Í kjölfar samskipta við Ríkisendurskoðun ákvað Fasteignaskrá Íslands að enda umræddan verksamning og hefur starf forstöðumanns tölvudeildar stofnunarinnar nú verið auglýst. Í skýrslunni eru ríkisstofnanir minntar á mikilvægi þess að fylgja reglum um mun verktakavinnu og launþegavinnu og að auglýsa jafnan laus störf.

Fram kemur í skýrslunni að Fasteignaskrá svaraði bréfi Ríkisendurskoðunar 12. janúar 2010 og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Í lok svarsins kemur fram að stofnunin áformi að enda verksamning sinn við Tölvuskjölun ehf. frá og með 1. apríl 2010 og auglýsa og ráða í starf forstöðumanns tölvudeildar fyrir þann tíma.

Slíkt hefur nú verið gert með samkomulagi Fasteignaskrár og Tölvuskjölunar ehf. sem undirritað var 18. febrúar 2010 og tekur gildi frá og með 31. mars sama árs. Jafnframt var starf forstöðumanns tölvudeildar stofnunarinnar auglýst á Starfatorgi 20. febrúar 2010.

Ríkisendurskoðun fagnar þessari niðurstöðu og væntir þess að þar með sé afskiptum hennar af þessu máli lokið. Stofnunin telur engu að síður rétt að birta samskipti sín við Fasteignaskrá Íslands. Að auki mun hún fylgjast með gangi mála á komandi mánuðum.

Þess má geta að skýrslan er fjórða áfangaskýrsla Ríkisendurskoðunar sem fjallar um úttekt hennar á innkaupamálum ríkisins. Áður eru komnar út skýrslur um innkaupastefnu ráðuneytanna, verktakagreiðslur Háskóla Íslands og viðskipti ríkisstofnana við úrtak 800 birgja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×