Viðskipti innlent

TM snéri miklu tapi í hagnað á síðasta ári

Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) af reglulegri starfsemi á árinu 2009 var 237 milljónir kr. samanborið við 5.529 milljóna kr. tap 2008.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að hagnaður af vátryggingastarfsemi var 342 milljónir kr. fyrir skatta samanborið við 166 milljóna kr. hagnað 2008.

Heildareignir TM voru 28,5 milljarðar kr. Eigið fé nam 8 milljörðum kr. og eiginfjárhlutfall var 28% þann 31. desember 2009.

„Í ljósi efnahags- og samkeppnisaðstæðna var vöxtur og afkoma TM á árinu 2009 viðunandi. Iðgjaldatekjur aukast á sama tíma og tjónakostnaður lækkar. Hagræðingaraðgerðir á árinu 2009 skiluðu góðum árangri og lækkar rekstrarkostnaður félagsins umtalsvert," segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í tilkynningunni.

„ Fjárhagsstaða TM er sem fyrr traust en mikill viðsnúningur varð í fjárfestingastarfsemi félagsins. Styrkur TM felst í góðu sambandi við viðskiptavini og reksturinn framundan býður uppá fjölmörg tækifæri".

Ennfremur segir Sigurður að hagnaður af vátryggingastarfsemi var 342 milljónir kr. fyrir skatta á árinu 2009. Afkoma eigna-, slysa- og frjálsra ökutækjatrygginga batnar verulega milli ára og er ánægjulegt að sjá markvissa vinnu á þessum sviðum skila árangri. Afkoma lögboðinna ökutækjatrygginga er óbreytt milli ára þrátt fyrir verulega fækkun árekstra.

Athygliverð þróun hefur átt sér stað í greininni þar sem líkamstjónum fjölgar á sama tíma og munatjónum fækkar verulega. Afkoma skipa- og ábyrgðartrygginga veldur vonbrigðum en mikil fjölgun varð á ábyrgðartjónum í kjölfar efnahagshrunsins. Þrátt fyrir nýjar áskoranir lækkar tjónshlutfall samstæðunnar úr 104% í 94%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×