Viðskipti innlent

Losaði bréf í FL Group úr bókunum í miðju hruni

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Glitni tókst að fegra stöðu sína tveim dögum eftir þjóðnýtingu bankans og fimm dögum fyrir bankahrun, með því að losa hlutabréf í FL Group upp á 14 milljarða króna til félagsins Styrks Invests gegn láni með veði í bréfunum sjálfum.

Styrkur Invest er stofnað á grunni félagsins BG Capital en helsti tilgangur félagsins var að fjárfesta í hlutabréfum í FL Group og var félagið stærsti hluthafi félagsins fyrir banakhrunið og átti 39 prósenta hlut.

Félagið skuldar núna 47 milljarða króna, en engar eignir eru til staðar. Þarna er um að ræða lánveitingar frá lífeyrissjóðunum, lán frá Landsbankanum upp á samtals tólf milljarða króna og lán frá Baugi upp á tæplega tíu milljarða króna, svo fátt eitt sé nefnt.

Tvær þessara krafna eru kröfur samtals upp á 14 milljarða króna frá Glitni banka, en um er að ræða kröfur vegna lána sem veitt voru til Styrks Invests hinn 1. október 2008 til að kaupa hlutabréf í FL Group af Glitni banka og voru lánin tryggð með veði í bréfunum sjálfum. Þetta var tveimur dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis sem var hinn 29. september og fimm dögum fyrir bankahrunið, en neyðarlögin voru sett hinn 6. október. Um var að ræða nátengda aðila því Styrkur var stærsti hluthafinn í FL Group og FL Group var stærsti hluthafinn í Glitni.

Leiða má að því líkum að um sé að ræða framlengingu á eldri framvirkum samningi, en ekki fengust upplýsingar um það í dag. Jafnframt er ekkert í bókhaldi þrotabús Styrks Invest sem staðfestir það. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Glitnis banka er hins vegar hæpið að um nýtt lán hafi verið að ræða.

Það var þó samdóma álit þeirra sem fréttastofa ræddi við, bæði hagfræðinga og löggiltra endurskoðenda, að lánveiting til hlutafélags liti betur út í bókhaldi Glitnis banka í miðju bankahruninu en verðlaus hlutabréfaeign í FL Group.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×