Viðskipti innlent

Hagstætt verð á áli hefur áhrif á vöruskiptin

Aukning útflutnings í febrúar, þ.e. án skipa og flugvéla, frá sama tíma í fyrra skýrist einkum af auknum tekjum af útfluttum iðnaðarvörur og nam útflutningsverðmæti þeirra ríflega 26,1 milljörðum kr. í mánuðinum. Þetta er aukning upp á 77,2% á föstu gengi m.v. sama tíma í fyrra og má þakka það 60-70% verðhækkun á áli á tímabilinu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um vöruskiptin í febrúar en þau voru hagstæð um 13,9 milljarða kr.

Í Morgunkorninu segir að myndarlegur afgangur af vöruskiptum í febrúar skrifast fyrst og fremst á samdrátt í innflutningi. Þannig var vöruinnflutningur með minna móti í mánuðinum, og voru alls fluttar inn vörur fyrir 30,4 milljarða kr.

Sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum var vöruinnflutningur um 9,6% minni nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra. Skýring þessa samdráttar liggur að hluta til í að minna er flutt inn af mat- og drykkjarvörum, eldsneyti og smurolíu svo og flutningstækjum en samanlagt var samdráttur þessara liða um 35,5% á föstu gengi.

Á hinn bóginn jókst innflutningur fjárfestingavara um 160% á föstu gengi, svo og innflutningur á hrá-og rekstrarvörum um 10% og neysluvörum (t.d. heimilistækjum og fatnaði) um 4,6%.

Alls voru fluttar út vörur fyrir 44,3 milljarða kr. í febrúar sem er nokkuð minni útflutningur en á sama tíma í fyrra, eða um 5,3% á föstu gengi. Skýrist það einkum að á sama tíma í fyrra nam verðmæti útfluttra skipa og flugvéla 7,4 milljörðum kr. en að þeim lið frátöldum jókst útflutningur um 17,2% á föstu gengi.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rúm 16,3 milljörðum kr.í mánuðinum og dróst saman um 4,5% frá sama tíma 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×