Viðskipti innlent

Ágúst og Lýður missa tökin á Existu

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir munu ekkert eiga í Existu í framtíðinni. Mynd/ Hari.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir munu ekkert eiga í Existu í framtíðinni. Mynd/ Hari.
Stjórn Existu ætlar að freista þess að rifta tilteknum gjörningum sem fyrrverandi eigendur og stjórnendur félagsins framkvæmdu. Ágúst og Lýður Guðmundssynir, fyrrverandi aðaleigendur Existu, munu ekki eiga neitt í félaginu í framtíðinni.

Í byrjun mars samþykkti meirihluti kröfuhafa Bakkavarar nauðasamninga félagsins og voru einungis tvö prósent þeirra á móti. Hefðu nauðasamningar verið felldir hefði móðurfélag Bakkavarar farið í þrot og lán til rekstrarfélaga erlendis verið gjaldfelld. Við það hefði Bakkavararveldið hrunið og ekkert fengist upp í skuldir sem nema rúmum sextíu milljörðum króna. Þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hættu svo í stjórn Existu á framhaldsaðalfundi félagsins sem haldinn var í lok apríl. Forstjórar félagsins létu einnig af störfum.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að kröfuhafar muni fá á bilinu sjö til rúmlega fimmtíu prósent krafna sinna greiddar á næstu tíu til tuttugu árum og tíu prósent krafna verði breytt í verðlaust hlutafé verði nauðasamningur samþykktur. Helstur kröfuhafar eru lífeyrissjóðir, ásamt skilanefndum Glitnis og Kaupþings, Íslandsbanka, Arion banka, Landsbankanum, MP banka og sparisjóðunum. Í trúnaðargögnum Viðskiptablaðsins kemur einnig fram að þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, fyrrverandi aðaleigendur félagsins, munu ekki eiga neitt í félaginu í framtíðinni.

Exista á 100% hlut í Skiptum, móðurfélagi Símans, Lýsingu, VÍS og Lífis. Í gögnunum kemur fram að Skipti og Lýsing séu verulega skuldsett og því lítið verðmæti fólgið í hlutafé þeirra sem stendur. Búist er við að afstaða kröfuhafa gagnvart nauðasamningsfrumvarpinu muni liggja fyrir á allra næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×