Viðskipti innlent

Ekki vitað hvað fæst upp í almennar kröfur þrotabús Baugs

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Skiptastjóri þrotabús Baugs segir að ekkert liggi fyrir um hversu mikið fáist upp í almennar kröfur þrotabúsins.

Heildarkröfur í þrotabú Baugs eru samtals 319 milljarðar króna, rúmlega þriðjungur þeirrar upphæðar eru veðtryggðar kröfur og hafa stórir kröfuhafar eins og Landsbankinn nú þegar gengið að veðum sínum, t.d í bresku verslanakeðjunni Iceland Foods. Almennar kröfur eru samtals 166 milljarðar króna, en það eru kröfur sem eru ekki tryggðar með veðum, eru aftar í kröfuröð og óvíst er hvað fæst upp í.

Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs, segir að ekkert liggi fyrir um verðmæti eigna til skiptanna. Hann segir jafnframt að endanleg fjárhæð samþykktra krafna liggi ekki fyrir, en mörgum kröfum í þrotabúið var hafnað með fyrirvara. Erlendur segir að frétt Morgunblaðsins í dag um að 1 - 2 prósent fáist upp í almennar kröfur sé úr lausi lofti gripin og að prósentan sé ekki frá sér komin.

Að sögn Erlendar er ekki algengt þegar um gjaldþrota fyrirtæki sé að ræða að endurheimtuhlutfall almennra krafna fari yfir 10 prósent. Hann segir hins vegar of snemmt að spá um hvað hlutfallið verði í tilviki Baugs. Ekki sé tímabært að ræða endurheimtur fyrr en niðurstöður úr dómsmálum sem þrotabúið hafi höfðað liggi fyrir en þrotabúið hefur höfðað fimm riftunarmál þar sem samtals fjárhæð krafna hleypur á tugum milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×