Viðskipti innlent

Orkukostnaður Íslendinga jókst langmest af OECD löndum

Í nýrri skýrslu frá OECD kemur fram að orkukostnaður Íslendinga jókst langmest af öllum þjóðum innan OECD á tímabilinu janúar í fyrra og til janúar í ár. Á Íslandi jókst kostnaðurinn um 22,7% á tímabilinu en meðaltalshækkunin í OECD var 10,6%.

Næst á eftir Íslandi koma Bandaríkin með aukningu upp á 19,1%. Meðaltalsaukningin hjá þjóðunum 16 á evrusvæðinu var hinsvegar aðeins 4% á þessu tímabili.

Fram kemur í skýrslunni að hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu í janúar hafi kynnt undir verðbólgu hjá þjóðunum innan OECD. Mest varð aukning verðbólgunnar í Bretlandi eða 3,5%. Verðbólgan að meðaltali meðal 31 þjóða OECD jókst hinsvegar úr 1,9% og í 2,1%.

Í Bandaríkjunum stóð verðbólgan hinsvegar nær í stað í 2,7% og Japan er svo undantekningin með verðhjöðnun upp á 1,3%. Sú verðhjöðnun var þó aðeins skárri en í desember þegar hún mældist 1,7%, að því er kemur fram í frétt á Reuters um málið.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru hækkanir á bensíni og olíum að baki stærstum hluta hækkana á orkukostnaðainum, en þær hækkuðu um 31-35% á tímabilinu. Dísilolía hækkaði um 16%.

Rafmagn til lýsingar og húshitunar hækkaði um 10% og 22% og hiti hækkaði um 4%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×