Viðskipti innlent

Allar líkur á talsverðum viðskiptajöfnuði næsta kastið

Greining Íslandsbanka telur allar líkur á að afgangur af viðskiptajöfnuði reynist talsverður næsta kastið, ef frá eru talin áhrif gömlu bankanna. Áfram séu horfur á myndarlegum afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði vegna lágs raungengis krónu og tiltölulegra hagstæðrar verðþróunar helstu útflutningsvara okkar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að áfram muni hins vegar verða talsverður halli á þáttatekjujöfnuði í ljósi þess að hrein erlend staða þjóðarbúsins er neikvæð. Sá halli mun að mati greiningarinnar ekki vega upp afgang af utanríkisviðskiptum.

Undirliggjandi afgangur af viðskiptajöfnuði mun styðja við krónuna á næstunni líkt og verið hefur frá síðasta hausti. Þau áhrif eru þau mun óljósari en ella vegna áhrifa gjaldeyrishaftanna og óvissu um hve mikill þrýstingur til gjaldeyrisútflæðis kann að skapa þegar farið verður að aflétta þeim fyrir alvöru.



Á síðasta fjórðungi ársins 2009 var 29 milljarða kr. afgangur á utanríkisviðskiptum með vöru og þjónustu. Halli á þáttatekjum nam hins vegar ríflega 40 milljörðum kr. á sama tíma og reyndist því viðskiptahalli 13,3 milljarða kr. á tímabilinu. Sú tala endurspeglar þó ekki undirliggjandi greiðsluflæði, þar sem þáttatekjuhallinn á að verulegu leyti rót í reiknuðum vaxtagjöldum gömlu bankanna. Þau gjöld eru hins vegar ekki greidd, enda greiðendurnir í slitameðferð.

Að frátöldum áhrifum af gömlu bönkunum var 10,2 milljarða kr. afgangur af viðskiptajöfnuði á fjórðungnum, og endurspeglar sú tala betur greiðsluflæði til og frá landinu að mati greiningarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×