Viðskipti innlent

Ólöglegt gjaldeyrisbrask veikti krónuna

Í janúar voru 4 einstaklingar handteknir vegna gruns um brot gegn gjaldeyrishaftalögunum. Það var Seðlabankinn sem skoðaði málið fyrst, sendi það til Fjármálaeftirlitsins sem vísaði málinu svo til Efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Alls hafa nú átta mál farið þessa leið. Samkvæmt heimildum fréttastofu nemur heildarupphæðin í þessum málum yfir 30 milljörðum íslenskra króna. Allt að 180 viðskiptamenn tóku þátt í braskinu. Rannsókn allra málanna, utan eins, er á byrjunarstigi.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við HR, segir braskið hafa valdið neikvæðum þrýstingi á krónuna. Seðlabankinn notaði um fimmtán milljarða króna af gjaldeyrisvaraforðanum til að styðja við gengi krónunnar, þegar braskið átti sér stað.

Friðrik Már segir erfitt að meta nákvæmlega hversu mikið krónan veiktist vegna þessara viðskipta.

Veiking krónunnar hefur áhrif á öll heimili í landinu. T.a.m. hækka innfluttar vörur, eins og bensín auk þess sem öll gengistryggð lán, vegna íbúða og bíla, fara sömu leið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×