Viðskipti innlent

Dráttur á gögnum frá Lúxemborg

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Hálfs árs dráttur getur orðið á því að embætti sérstaks saksóknara fái gögn sem efnahagsbrotadeildin í Lúxemborg lagði hald á í húsleit í Banque Havilland.

Fyrir um hálfum mánuði gerðu um fjörutíu lögregluþjónar í Lúxemborg húsleit í bankanum Banque Havilland sem áður var Kaupþing. Húsleitin var gríðarlega umfangsmikil en hún tengist viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og skuldatryggingum. Því er þó ekki að heilsa að embættið sé búið að fá gögnin í hendurnar. Ferlið er flóknara en svo í landinu þar sem bankaleyndin er í hávegum höfð. Eftir húsleitina voru gögnin send til rannsóknardómara í Lúxemborg. Viðskiptavinir bankans sem gögnin varða og bankinn sjálfur höfðu þá tveggja vikna frest til að kæra haldlagninguna á gögnunum.

Fresturinn rann út á föstudag og hefur fréttastofa reynt að fá svör um hvort slík kæra hafi borist. Ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum. Ef kæra berst er ljóst að það mun seinka rannsókn sérstaks saksóknara en um hálft ár getur liðið þar til úrskurður fæst í málinu. Ef engin kæra hefur borist munu samt líða um þrír mánuðir þar til gögnin skila sér hingað til lands. Þriggja manna nefnd á vegum rannsóknardómarans mun þá fara yfir gögnin og ganga úr skugga um að þau passi við réttarbeiðnina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×