Viðskipti innlent

Erlendar eignir bjarga stöðunni í lok næsta árs

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að þjóðarbúið ráði við greiðslur á erlendum lánum á gjalddaga í lok næsta árs og upphafi ársins 2012. Hann nefnir sem dæmi erlendar eignir sem hægt sé að leysa til sín eins og Kaupþingslánið sem veitt var með veði í FIH bankanum haustið 2008.

Greiðslurnar sem um er rætt eru 300 milljónir evra til greiðslu síðla hausts á næsta ári, einn milljarður evra sem er á gjalddaga 1. desember og 250 milljónir evra sem eru á gjalddaga fyrrihluta ársins 2012 eða samtals ríflega 1,5 milljarður evra.

Már nefndi á fundi um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í morgun að Seðlabankinn myndi ráða við þessar greiðslur með því m.a. að selja kröfur sem bankinn eignaðist í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008. Nefndi hann veðið í FIH bankanum danska sem dæmi en það nemur 500 milljónum evra eða þriðjungi af fyrrgreindum afborgunum.

Hinsvegar munu þessar greiðslur verða þungbærar ef ekkert annað kemur á móti. Már segir að gjaldeyrisforðinn yrði mjög lítill á eftir og Ísland stæði berskjaldað hvað þetta varðar og slíkt gæti slegið út í lækkandi gengi.

Ekki væri hægt að útiloka að ef þessi staða kemur upp að Seðlabankinn þyrfti að grípa til þess að kaupa gjaldeyri hér innanlands í samkeppni við þá sem þurfa á slíkum gjaldeyri að halda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×