Viðskipti innlent

Hagnaður HB Granda nam 2,2 milljörðum í fyrra

Hagnaður HB Granda, eftir skatta, nam rúmum 2,2 milljörðum kr. á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör ársins sem birt hefur verið á heimasíðu HB Granda.

Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2009 námu rúmum 20 milljörðum kr., samanborið við rúmlega 21 milljarð kr. árið áður.

Mun minna veiddist af ufsa og karfa árið 2009 en árið áður, bæði á frystitogurum og ísfisktogurum. Á móti kom að veiði frystitogara á gullaxi og úthafskarfa jókst verulega á milli ára, sem og þorskveiðar ísfisktogara.

Eingöngu var gefinn út takmarkaður rannsóknarkvóti á loðnu, en árið áður veiddu skip félagsins 31.000 tonn. Einnig minnkaði verulega afli á íslenskri síld í kjölfar sýkingar stofnsins. Á hinn bóginn jókst afli á norsk-íslenskri síld umtalsvert og við bættust veiðar á gulldeplu.

Hjá félaginu unnu að meðaltali 622 starfsmenn á árinu. Laun og launatengd gjöld námu samtals 6,3 milljörðum króna samanborið við 5,4 milljarða kr. árið 2008.

Heildareignir félagsins námu tæpum 50 milljörðum kr. í lok árs 2009. Í árslok námu heildarskuldir félagsins tæplega 27 milljörðum kr. . Eiginfjárhlutfall var 45%, en var 41% í lok árs 2008.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×