Viðskipti innlent

Verulega dregur úr samdrætti í veltu innanlands

Innlend velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum var um 2,6% minni að raunvirði á tímabilinu nóvember til desember síðastliðinn samanborið við sama tímabil árið 2008. Að nafnvirði jókst innlend velta hins vegar um 5,2%. Á þennan mælikvarða hefur verulega dregið úr samdrættinum í hagkerfinu en til samanburðar var samdrátturinn 13,4% að raunvirði á tímabilinu september til október síðastliðinn samanborið við sama tímabil 2008.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á árinu 2009 í heild var innlend velta 3,0% minni að nafnvirði en um 13,4% að raunvirði en árið 2008. Þetta má sjá í tölum yfir veltu fyrirtækja samkvæmt VSK-skýrslum til og með desember á síðasta ári. Í þessum tölum má jafnframt sjá hversu ólíku þróun veltu er í hinum ýmsu atvinnugreinum sem er til marks um hversu misjöfn skilyrði íslenskra fyrirtækja eru um þessar mundir.

Ekki ætti að koma á óvart að velta í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð skrapp mikið saman á milli ára. Á ofangreindu tímabili veltu þessar greinar ríflega 23% færri krónum en á sama tíma árið áður, og að raunvirði nam samdráttur veltu í þeim 29%. Samdrátturinn er jafnframt mun meiri ef miðað er við árið 2009 í heild, eða sem nemur tæpum 48% að raunvirði.

Ekki kemur heldur á óvart að velta í bílasölu dróst verulega saman enda hefur hún einnig átt undir högg að sækja. Þannig velti hún 10% færri krónum á tímabilinu nóvember til desember samanborið við sama tímabil 2008 og ef miðað er við árið í heild nam samdrátturinn 42% að nafnvirði.

Á hinn bóginn jókst veltan í umboðs- og heildsölu um ríflega 24% í krónum talið á síðustu tveimur mánuðum ársins samanborið við sama tíma árið á undan en á árinu í heild jókst hún um rúm 7% á sama mælikvarða.

Velta í fiskveiðum var 2% minni að nafnvirði í nóvember og desember í fyrra en á sama tíma árið 2008 en á árinu í heild jókst veltan hins vegar um ríflega 10% að nafnvirði. Þá jókst velta í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði, sem nær bæði yfir landvinnslu sjávarfangs og matvöruframleiðslu til innlendrar neyslu, um 5,5% að nafnvirði á síðustu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tímabil árið 2008 og ef miðað er við árið 2009 í heild var aukningin enn meiri, eða sem nemur 15,3% milli ára.

Velta í framleiðslu málma var 8,6% meiri að nafnvirði í nóvember og desember en í sömu mánuðum árið á undan en á árinu í heild stóð veltan nánast í stað frá fyrra ári en mikið verðfall varð á áli á seinni hluta síðasta árs.

Velta í flugsamgöngum jókst um 3,8% í krónum talið og velta hjá hótelum og veitingastöðum um 2,3%. Á árinu 2009 í heild virðast flugsamgöngur hafa gengið með ágætum en velta í þeim geira var 19,7% meiri að nafnvirði á árinu 2009 en 2008.

Rekstur hótela og veitingahúsa virðist ekki hafa notið lágs gengis krónu með sama hætti og flugreksturinn, og var einungis um 1,9% krónutöluaukning í veltu á þessum tíma.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×