Handbolti

Stundum pirraður á spurningum um Noka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alfreð er að gera frábæra hluti í Kiel.
Alfreð er að gera frábæra hluti í Kiel. Nordic Photos/Bongarts

Glæsilegur árangur Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hefur komið mörgum spekingum á óvart. Það var vitað að Kiel myndi standa sig vel í vetur en að liðið hefði slíka yfirburði sem raun ber vitni í þýska boltanum á sínu fyrsta ári með Alfreð við stjórnvölinn er ekki endilega það sem margir áttu von á.

Kiel tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu um helgina en hafði fram að því aðeins gert eitt jafntefli en unnið alla hina leikina í deildinni.

Liðið varð meistari í kvöld og verður sigurhátíð á morgun er liðið á heimaleik gegn Wetzlar.

Alfreð tók við starfinu af Noka Serdarusic síðasta sumar en Serdarusic vann 11 meistaratitla með Kiel á 15 árum. Það voru því stór spor að fylla.

„Fyrstu þrjá mánuðina var ég nánast ekki spurður að neinu öðru en hvernig það væri að feta í fótspor Noka. Það fór stundum í taugarnar á mér," sagði Alfreð við handboltavefinn Handball World.

Alfreð segir að hann hefði einfaldlega ekki getað hafnað Kiel þegar kallið kom.

„Ég hef verið hjá Magdeburg og Gummersbach sem eru stór félög. Það var líka mjög ánægjulegt að starfa fyrir bæði félög. Það er samt mjög sérstakt að þjálfa Kiel. Hér snýst allt um handbolta. Ég verð bráðum fimmtugur og þegar kallið kemur frá Kiel verða menn að bregðast við. Slíkt kall kemur aðeins einu sinni um ævina," sagði Alfreð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×