Körfubolti

NBA í nótt: Orlando kláraði vestrið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard og Nene í leiknum í nótt.
Dwight Howard og Nene í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Orlando vann í nótt sigur á Denver, 106-88, og vann þar með fjórða útisigurinn í röð í ferð sinni um vestrið. Hedo Turkoglu var stigahæstur með 31 stig.

„Þetta var mjög góð ferð hjá okkur," sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando. „Við unnum fjóra leiki í röð, þar af þrjá gegn liðum sem eru efst í sínum riðlum. Já, þetta var mjög góð ferð."

Jameer Nelson og Rashard Lewis voru báðir með 23 stig og Dwight Howard með fjórtán stig og 20 fráköst. Þeggar sjöundi sigur liðsins í röð og sá níundi af síðustu tíu leikjum liðsins. Þetta var annar leikurinn í röð sem Howard nær 20 fráköstum.

Orlando hefur unnið flesta leiki í allri deildinni og er hársbreidd á eftir Cleveland á toppi Austurdeildarinnar.

Chauncey Billups var með sextán stig í leiknum fyrir Denver.

Boston vann New Jersey, 105-85, og þar með sinn fjórða sigur í röð. Ray Allen skoraði 25 stig í leiknum, þar af níu er Boston komst í 18-2 forystu í leiknum.

Houston vann Miami, 93-86. Yao Ming bætti félagsmet er hann nýtti öll tólf skotin sín utan af velli og var alls með 26 stig og tíu fráköst í leiknum. Rafer Alston var með 22 stig.

Philadelphia vann New York, 107-97. Andre Iguodala var með 28 stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar fyrir Philadelphia.

San Antonio vann Chicago, 92-87. Tony Parker var með 20 stig og átta stoðsendingar en þetta var ellefti sigur San Antonio í síðustu fjórtán leikjum liðsins.

New Orleans vann Detroit, 91-85. Chris Paul var með 23 stig og fjórtán stoðsendingar en þetta var fimmta tap Detroit í röð.

Dallas vann Utah, 115-108. Dirk Nowitzky var með 39 stig í leiknum og nýtti sextán af 20 skotum sínum utan af velli. Þetta var fyrsti sigur Dallas í síðustu fimm leikjum liðsins.

Charlotte vann Portland, 102-97. Gerald Wallace var með 31 stig og sextán fráköst en það var Emeka Okafor sem tryggði Charlotte sigurinn með því að setja niður vítaköst undir lok leiksins. Þetta var þriðji sigur Charlotte í röð.

LA Clippers vann Milwaukee, 101-92. Brian Skinner var með átján stig en Marcus Camby varð fyrir því óláni að meiðast í fjórða leikhluta. Clippers kláraði þó leikinn og batt þar með enda á tólf leikja taphrinu.

Staðan í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×