Fastir pennar

Guðinn í vélinni

Undanfarið ár hefur gengisfall ýmissa orða og hugtaka jafnvel verið enn brattara en varð á krónunni í fyrra. Orð sem áður voru dýr, til dæmis, svik, landráð og þjóðargjaldþrot, er nú farið með sem hvert annað klink í umræðunni. Fyrir vikið er þunginn farinn úr þeim.

Viðbrögð gífuryrðakónganna hafa verið að gefa enn meira í og tvinna saman enn fleiri stóryrði. Afleiðingin er að orðin fölna enn frekar og missa lit sinn. Þetta er heldur dapurleg misnotkun á tungumálinu.

Ekki eru skilaboð þeirra sem hæst láta síður sorgleg. Ef mark er á þeim takandi á Ísland sér tæpast viðreisnar von.

Ýmsar af svakalegustu svartsýnisspánum og digrustu yfirlýsingunum hafa komið frá tiltölulega þröngum hópi þingmanna þjóðarinnar. Þar hafa farið fremstir í flokki tveir ónefndir þingmenn Framsóknarflokksins, við getum kallað þá Bölmóð og Dómsdag. Það verður áhugavert verkefni fræðinga framtíðarinnar að bera saman spádóma þeirra og veruleikann að nokkrum árum liðnum.

Væntanlega eru það svartsýnismönnunum vonbrigði að hér hefur margt farið betur en óttast var. Samdráttur í landsframleiðslu er minni en reiknað var með á árinu, færri eru atvinnulausir og spáð er tveggja til þriggja prósenta hagvexti á næstu árum.

Þetta þýðir þó hreint ekki að við séum komin fyrir horn. Áframhaldandi erfiðleikar eru við sjóndeildarhringinn og þeir munu ekki gufa upp.

Of margar hugmyndir eru á kreiki um að til séu einhverjar töfralausnir sem geta leyst vanda þjóðarinnar nánast á einu augnabliki. Flatar allsherjarafskriftir lána, umsókn um aðild að Evrópusambandinu, einhliða upptaka annars gjaldmiðils en krónunnar, að hafna Icesave-ábyrgðinni og leggja fyrir dómstóla; þetta eru nokkur dæmi um það sem má líkja við bið eftir Guðinum í vélinni, deus ex machina, sem kom svífandi úr rólu niður á sviðið í grískum harmleikjum og leysti úr vanda sögupersónanna þegar öll önnur ráð voru á þrotum.

Þessi bið er sú tegund af bjartsýni sem er á hinum endanum við bölmóðinn. Hvort tveggja er án jarðtengingar við raunveruleikann.

Bjartsýni sem byggir á bláeygri trú á að allt verði betra á morgun eða hinn er oftast gagnslítil og getur verið beinlínis háskaleg því hún hefur gjarnan í för með sér vonbrigði þegar ekkert breytist.

Sú gerð af bjartsýni sem dugar betur er að temja sér að líta sæmilega jákvætt á tilveruna. Og þar er af nægu að taka.

Þrátt fyrir þrönga stöðu er hér enn mjög öflugt samfélag, með sterkt mennta- og velferðarkerfi. Skuldastaða þjóðarbúsins er vel viðráðanleg og í raun betri en fjölmargra annarra Evrópulanda þegar til lengri tíma er litið. Þar vegur hvað þyngst geysilega sterk staða lífeyrissjóðanna og jákvæð aldurssamsetning þjóðarinnar. Ísland er yngsta þjóð Evrópu og því í verulega betri málum en til dæmis Frakkland, Ítalía og Grikkland, þar sem fleiri munu þiggja lífeyri en verða á vinnumarkaði árið 2020. Það mat er reyndar hvorki byggt á bölmóði né bjartsýni heldur raunsæi.












×