Handbolti

Kiel kærir Jesper Nielsen fyrir meiðyrði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, staðfesti við Vísi í dag að félag hans, Kiel, hefði kært danska skartgripajöfurinn Jesper Nielsen, stjórnarmann hjá Rhein-Neckar Löwen, fyrir meiðyrði.

Nielsen hefur farið mikinn í þýskum fjölmiðlum síðustu vikur og ásakað Kiel um ýmislegt. Meðal annars um að múta dómurum hér áður fyrr og nú síðast fyrir að múta dómurum á þessari leiktíð.

„Mér skilst að það sé búið að kæra hann. Það sem hann hefur verið að bera á borð finnst mér ekkert sérstaklega heiðarlegt," sagði Alfreð.

„Hann er að spila ákveðna taktík með það að markmiði að við missum styrktaraðila. Það er mjög augljóst. Öll umræða um þessi mál hefur meira og minna verið í einhverjum sorpritum. Fjölmiðlar eru orðnir margir hverjir þannig í dag að þeir birta allt til að selja blöð.

Hann fann morgunpóstinn í Hamburg til þess að birta sínar fréttir en það blað er ekkert sérstaklega vant að sinni virðingu," bætti Alfreð við og ljóst að Daninn yfirlýsingaglaði er ekki ofarlega á vinsældalista Alfreðs.

Nielsen reyndi í fyrra að ná völdum í Kiel og vilja margir meina að hann sé að svara fyrir sig þar sem tilboði hans var hafnað.

„Hann bauð rúmlega helmingi meiri pening en okkar aðalstyrktaraðili í dag, Provinzial, er að borga. Kiel hafnaði honum og framlengdi við Provinzial," sagði Alfreð sem er ekki jafn mikið fyrir sviðsljósið og Jesper.

„Hann fór í kjölfarið yfir til Löwen og aðallega til þess að vera í blöðunum sýnist mér. Það er einhver athyglissýki í gangi þarna," sagði Alfreð Gíslason.

Ítarlegt viðtal verður við Alfreð í Fréttablaðinu á morgun og þar er komið víða við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×