Handbolti

Róbert með fjögur í sigri Gummersbach

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson í leik með Gummersbach.
Róbert Gunnarsson í leik með Gummersbach. Nordic Photos / Getty Images

Róbert Gunnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Gummersbach sem vann tveggja marka sigur á Wetzlar, 26-24, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Gummersbach var með frumkvæðið lengst af í leiknum en Wetzlar var þó aldrei langt undan. Síðarnefnda félaginu tókst að minnka muninn í eitt mark, 24-23, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka en þá skoraði Gummersbach tvö mörk í röð.

Gummersbach er nú með tólf stig og situr sem stendur i fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Kiel.

Íslendingafélagið Hannover-Burgdorf tapaði svo fyrir toppliði Hamm í norðurriðli B-deildarinnar, 27-25. Heiðmar Felixsson skoraði fjögur mörk fyrir fyrrnefnda félagið og Hannes Jón Jónsson eitt.

Hannover-Burgdorf er í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig, þremur stigum á eftir Hamm.

Á morgun fer svo fram afar mikilvægur leikur hjá Þóri Ólafssyni og félögum í Lübbecke, gegn Ahlener. Bæði lið hafa unnið alla sína sex leiki til þessa og mun sigurliðið í þeim leik skjótast á topp riðilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×