Viðskipti innlent

Áætlar að um 200 bankamenn séu í atvinnuleit í öðrum löndum

Friðbert Traustason.
Friðbert Traustason.

Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, áætlar að um helmingur þeirra bankastarfsmanna sem sagt hefur verið upp, eða um 200 manns, sé nú að leIta hófanna um atvinnu í öðrum löndum.

Hér er átt við fyrverandi starfsmenn Landsbankans og Glitnis en ekki liggur enn ljóst fyrir hve mörgum verður sagt upp hjá Kaupþingi. Miðað við heildarfjölda starfsmanna Kaupþings megi áætla að uppsagnir þar verði um 100 manns eða svipað og hjá Glitni en starfsmannafjöldinn hjá þessum tveimur bönkum var svipaður.

Friðbert segir að það sé einkum yngra starfsfólkið sem leiti fyrir sér um atvinnu erlendis. „Þetta fólk er yfirleitt með framhaldsmenntun á sínu sviði frá góðum skólum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum," segir Friðbert.

Fram kemur í máli Friðberts að þeir sem voru tölvu- eða tæknimenntaðir hjá bönkunum ættu að geta fengið vinnu hjá öðrum íslenskum fyrirtækjum.

„Við höfum mestar áhyggjur af framtíð fólks sem er á aldrinum frá þrítugu og upp undir fimmtugt," segir Friðbert. „Þetta fólk er yfirleitt bundið í báða skó hér heima, með börn í skólum og skuldbindingar hvað varðar fasteignir sínar svo dæmi séu tekin."

Friðbert segir að SSF eigi nú samvinnu við marga aðila um að útvega þessu fólki vinnu. Megi þar nefna ráðningarstofur, háskóla, Nýsköpunarmiðstöð og þau fagráðuneyti sem hafa með bankamál að gera.

„Svo má nefna að mörg fyrirtæki hér heima þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn og hagræða og þá munu þau væntanlega leita til þessara starfsmanna í einhverjum mæli enda slíkar aðgerðir á sérsviði margra sem sagt hefur verið upp," segir Friðbert.

 











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×