Handbolti

Viðvörunarbjöllur hringja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Aron Kristjánsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
„HSÍ þarf ekki bara að ráða landsliðsþjálfara heldur einnig huga að framtíðinni og skipuleggja faglegu hlið handboltans," segir Aron Kristjánsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Ísland varð í ellefta sæti á EM í Noregi og engum blöðum um það að fletta að sá árangur var langt frá því sem liðið sjálft ætlaði sér.

Aron hefur fylgt lesendum Vísis í gegnum mótið og gerir nú upp mótið fyrir íslenska liðið auk þess sem hann segir hvað HSÍ þarf að gera til að íslenska handboltalandsliðið dragist ekki aftur úr öðrum þjóðum.

„Við vorum ekki að spila nægilega vel á þessu móti og það var mikill óstöðugleiki í liðinu," sagði Aron þegar hann var spurður um hvað væri það fyrsta sem kæmi upp í hugann þegar hann velti fyrir sér gengi íslenska liðsins á EM í Noregi.

Aron er nú staddur í Frakklandi með liði sínum, Haukum, þar sem liðið er í æfingaferð.

„Hér erum við að spila gegn nokkrum ungum liðum og miðað við það sem er að gerast á Íslandi finnst mér við vera að detta aftur úr hvað varðar líkamlegan styrk. Allt of margir leikmenn hafa komið upp í meistaraflokk án þess að hafa þann líkamlega styrk sem þarf til í alþjóðlegum handbolta."

„Það er ljóst að við Íslendingar þurfum að sitjast niður og skipuleggja þróun handboltans á Íslandi sem og þjálfun. Það þarf að huga að menntun þjálfara og byrja fyrr á líkamlegri þjálfun ungra leikmanna - svo þeir fái þann vöðvamassa og úthald sem til þarf."

„Við þurfum að skipuleggja okkur betur til að halda stöðu okkar meðal sterkustu þjóða heims enda höfum við klárlega burði í það. Hins vegar eru viðvörunarbjöllur farnar að hringja. En þekkingin er til staðar og getum við þetta alveg."

„Það er heilmikið af góðum efniviði og margir góðir ungir leikmenn til á Íslandi. Við þurfum bara að skipuleggja okkur betur, huga vel að yngri landsliðunum og halda áfram að halda úti B-landsliðinu eins og gert var núna í janúar. Það eykur breiddina til lengri tíma litið."

Aron er á þeirri skoðun að Alfreð hefði átt að vera með aðstoðarþjálfara með sér í Noregi.

„Í svona stuttu en strembnu móti er alltaf eitthvað sem fer framhjá manni. Og betur sjá fjögur augu en tvö. Það er líka alltaf gott að fá að heyra skoðanir annarra þó maður þurfi ekki endilega alltaf að vera sammála þeim. En maður hugsar um það sem kom fram, veltir þeim fyrir sér, og kannski vekur það upp hugsanir sem verður til þess að maður bregst öðruvísi við."

„En Alfreð er vanur því að vinna einn og finnst það þægilegt. Ég lái honum ekki það og myndi alls ekki segja að liðið lenti í 11. sæti á mótinu af því að Alfreð gerði einhver mistök. Hann hefur gert afskaplega mikið af mjög góðum hlutum."

Alfreð gaf það út eftir síðasta leik Íslands á mótinu að hann væri hættur og liggur því beinast við að spyrja Aron hver eigi að taka við hans starfi.

„Mér finnst að HSÍ eigi að hugsa sinn gang mjög vel. Sambandið hefur verið mikið í því að „plástra" starfið undanfarin misseri og hugsa bara um að komast í næsta mót og svo framvegis. Það er vissulega mikilvægt að vera með á stórmótum en það má ekki gleyma uppbyggingunni og þróun handboltans. Annars missum við einfaldlega okkar sterku stöðu."

„HSÍ hefur ekki bara verk að vinna með ráðningu nýs landsliðsþjálfara heldur þarf sambandið einnig að skipuleggja þá faglegu hlið sem snýr að handboltanum eins og menntun þjálfara og uppbyggingu framtíðarlandsliðsmanna."

Að síðustu verður ekki hjá því komist að spyrja Aron hvort hann myndi taka við íslenska landsliðinu yrði hann beðinn um það. Aron var til að mynda einn þeirra fjögurra þjálfara sem Alfreð hefur nefnt til sögunnar sem hugsanlegan eftirmann sinn.

„Það er auðvitað heiður fyrir alla íslenska þjálfara að gerast landsliðsþjálfari og auðvitað myndi maður skoða það mjög vel," sagði Aron eins og besti stjórnmálamaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×