Handbolti

Minden bjargaði sér frá falli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kiel tók við sigurlaunum sínum í dag.
Kiel tók við sigurlaunum sínum í dag. Nordic Photos / Bongarts

Minden náði í dag að bjarga sér frá falli úr þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en Íslendingaliðin Lübbecke og Wilhelmshaven féllu í B-deildina.

Einar Örn Jónsson átti stórleik og skoraði sex mörk fyrir Minden sem vann ótrúlegan sigur á Flensburg, 29-28, sem dugði liðinu til að bjarga sér frá falli.

Minden sleppur líka við umspilið en liðið hafnaði í fjórða neðsta sæti með átján stig, rétt eins og Essen og Lübbecke.

Essen fer í umspilið en Lübbecke verður að sætta sig við fall í B-deildina þrátt fyrir sigur á Füchse Berlin í dag, 30-26. Þórir Ólafsson lék ekki með Lübbecke í dag vegna meiðsla en Birkir Ívar Guðmundsson lék kveðjuleik sinn með liðinu í dag.

Essen gerði jafntefli við Melsungen, 35-35, eftir að hafa verið undir lengst af í leiknum. Andrei Siniak skoraði jöfnunarmark liðsins þegar sextán sekúndur voru til leiksloka og tryggði þar með sínum mönnum rétt til að spila við lið úr B-deildinni um laust sæti í úrvalsdeildinni.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í dag en Einar Hólmgeirsson komst ekki á blað. Þetta var einnig kveðjuleikur hans með félaginu en hann hefur samið við Grosswallstadt um að leika með félaginu á næstu tveimur tímabilum.

Wilhelmshaven tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen í dag, 37-30, og hafnaði í neðsta sæti með fjórtán stig. Gylfi Gylfason skoraði sex stig fyrir Wilhelmshaven.

Kiel var þegar búið að tryggja sér meistaratitilinn en liðið endaði með sjö stiga forystu á Flensburg og Hamburg sem komu næst. Rhein-Neckar Löwen varð í fjórða sæti og Nordhorn í því fimmta og taka því þátt í EHF-bikarkeppninni á næstu leiktíð. Þrjú fyrstnefndu liðin keppa í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Gummersbach varð í sjötta sæti með 41 stig, 20 á eftir Kiel. Liðið tapaði fyrir Magdeburg í dag, 35-33, á heimavelli. Guðjón Valur Sigurðsson lék kveðjuleik sinn með félaginu og skoraði átta mörk. Hann leikur með Rhein-Neckar Löwen á næstu leiktíð. Sverre Andreas Jakobsson lék einnig kveðjuleik sinn með félaginu.

Róbert Gunnarsson skoraði sjö mörk fyrir Gummersbach í dag.

Lemgo varð í sjöunda sæti deildarinnar með 39 stig. Liðið tapaði fyrir Nordhorn í dag, 41-39, á útivelli. Logi Geirsson lék ekki með Lemgo í dag.

Göppingen varð í níunda sæti með 31 stig. Liðið tapaði fyrir Hamburg í dag, 29-24, á útivelli. Jaliesky Garcia skoraði eitt mark fyrir Hamburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×