Fastir pennar

Olíuþegnarnir

Ég tek ofan fyrir trukkabílstjórum landsins. Þeir hafa afsannað þá alkunnu kenningu að Íslendingar láti allt yfir sig ganga - og kjósi fremur að ganga með veggjum, þegar á bjátar, fremur en að byrsta sig á torgum.

Íslendingar hafa gjarnan mótmælt með fámunalega aumri aðferð, sem felst í því að þusa, hver í sínu horni, en snúa sér því næst til veggjar og byrgja reiðina innra með sér. Það er af þessum ástæðum sem Íslendingar ganga á stundum með höfuð sín í handarkrikanum, því fátt er þeim raunameira en að deila áhyggjum sínum með öðru fólki; það kallar á ódrukkin samtöl, samhug, samstöðu.

Sem er ekki íslenskt.

Belgar eru annarrar náttúru; ófemnir við að ræsa traktorana sína og tæta og trylla stjórnkerfið í Brúarseli ef áburðarverð hækkar um þumlung. Vestur í Bandaríkjunum keyra menn fylkja á milli til að kaupa gallonið við betra verði en heima fyrir. Á Spáni ganga lestarstjórar út á einu augabragði og lama samfélagið. Og trukkabílstjórarnir í Frans eru svo auðvitað sér kapituli í þessu ævintýri öllu; hin raunverulega franska bylting sem enn lifir.

Heima á Íslandi hefur þetta verið aumara en úldinn fögl, eins og sagt var fyrir austan í bágindum síðmiðalda.

Þar til fyrir helgi ... að vonin birtist í býsna þrútnum bílstjórum. Íslenskum, vel að merkja.

Svo ... nú er eitthvert vor í lofti.

Það er franskt andrúm.

Altént eitthvað útlenskt við þessi tíðu og markvissu mótmæli íslensku trukkabílstjóranna sem standa reiðir framan við tíu hjóla tröllin sín og horfa eins og fornkappar á eina allsherjar Lýðveldishátíðarlengju af almenningsfarartækjum í halarófu á eftir sér (sem Mogginn, vel að merkja kallar skrílslæti í leiðara sínum !!! )

En þjóðin er sammála, ekki Mogga, heldur mönnunum við stýrið. Merkilegt nokk. Í orði, altént.

Hún veit sem er að trukkarnir hafa talað ... af viti.

En hvar er hin raunverulega samstaða? Hvar er einkabílaalþýðan annars staðar en föst í röðinni?

Það vantar að þjóðin leggist á sveif með testósterón-tröllunum - og taki þetta með trukki og dífu.

Eða ætlar hún að snúa sér til veggjar ... enn einu sinni?

Og þusa grúfð í koddann sinn ...

-SER.






×