Körfubolti

Keflavík getur orðið deildarmeistari í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bobby Walker og félagar í Keflavík geta orðið deildarmeistarar í kvöld.
Bobby Walker og félagar í Keflavík geta orðið deildarmeistarar í kvöld. Mynd/E. Stefán

Ef Keflavík vinnur Skallagrím í Borgarnesi í kvöld tryggir liðið sér deildarmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla. Það er annars nóg um að vera í körfunni í kvöld.

Keflavík verður deildarmeistari með sigri í kvöld þar sem liðið nær þá tveggja stiga forystu á KR þegar aðeins ein umferð er eftir. Keflavík er með betri árangur en KR í innbyrðisviðureignum liðanna og því öruggt með fyrsta sætið.

Tveir síðustu leikirnir í næstsíðustu umferð Iceland Express-deildar karla fara fram í kvöld. Hinn leikurinn er viðureign Hamars og Stjörnunnar í Hveragerði en fyrrnefnda liðið er þegar fallið í 1. deildina.

Stjarnan á hins vegar enn góðan möguleika á því að ná áttunda sætinu en til þess þarf liðið nauðsynlega að vinna í kvöld.

Ef það verður niðurstaðan verða bæði Tindastóll og Stjarnan með sextán stig í 9.-10. sæti en sigurvegari þess leiks á möguleika að ná Þór að stigum ef Akureyringar tapa fyrir Snæfelli í lokaumferðinni.

Snæfellingar munu hins vegar ekkert gefa eftir í þeim leik þar sem liðið á í harðri baráttu við Njarðvík um 4. sætið í deildinni og þar með heimavallarréttinn í viðureign liðanna í úrslitakeppninni sem er framundan.

Báðir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.

Úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna hefst

Í kvöld hefst svo úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna er KR tekur á móti Grindavík klukkan 19.15.

Þessi lið mættust í lokaumferð deildarkeppninnar þar sem heimavallarrétturinn var undir. Grindavík vann að vísu leikinn en ekki með nægilega stórum mun til að fá heimavallarréttinn.

Hann gæti skipt sköpum í þessu einvígi þar sem bæði KR og Grindavík hafa unnið hvort annað á heimavelli í vetur en að sama skapi tapað á útivelli í innbyrðis viðureignum liðanna.

Keflavík og Haukar mætast í hinni viðureigninni í úrslitakeppninni en fyrstu leikur liðanna verður í Keflavík á morgun klukkan 17.00.

Lokaumferð 1. deildar karla

Nú þegar er ljóst að Breiðablik er deildarmeistari 1. deildar karla og er þar með búið að tryggja sér sæti í Iceland Express deild karla á næsta keppnistímabili.

Fjögurra liða úrslitakeppni fer fram að deildarkeppninni lokinni til að skera úr um hvaða lið fylgir Blikum upp í efstu deild.

Það er einnig ljóst hvaða fjögur lið það verða - FSu, Valur, Haukar og Ármann/Þróttur.

FSu og Valur hafa þegar tryggt sér heimavallarréttindin en Ármann/Þróttur gæti náð fjórða sætinu af Haukum með sigri á Þrótti úr Vogum í kvöld. En þá verða Haukar að tapa fyrir FSu á heimavelli.

Verði Haukar og Ármann/Þróttur jöfn að stigum er síðarnefnda liðið ofar í stigatöflunni.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 20.00 nema leikur Hattar og Breiðabliks sem hófst klukkan 18.30.

Aðrir leikir kvöldsins:

Þróttur Vogum - Ármann/Þróttur

Reynir Sandgerði - Valur

Haukar - FSu

Þór Þorlákshöfn - KFÍ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×