Handbolti

Íslendingaliðin unnu í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í gær.
Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í gær. Nordic Photos / Getty Images

Flensburg er á góðri leið með að endurheimta toppsætið í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir sigur á Balingen í gær, 35-28.

Kiel kom sér á toppinn á þriðjudagskvöldið með sigri á Rhein-Neckar Löwen og hefur nú eins stigs forystu á Flensburg sem á þó leik til góða.

Alexander Petersson var næstmarkahæsti leikmaður Flensburg með sex mörk en Einar Hólmgeirsson komst ekki á blað.

Þá vann Gummersbach sigur á liði Wilhelmshaven, 38-23, eftir að staðan var 18-9 í hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson var markshæstur í liði Gummersbach með níu mörk og Róbert Gunnarsson bætti við fimm mörkum. Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn Gummersbach.

Gylfi Gyflason skoraði þrjú mörk fyrir Wilhelmshaven sem er í sextánda sæti deildarinnar.

Gummersbach er í sjötta sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×