Handbolti

Svíar í riðil Íslands í undankeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga erfiða törn framundan í vor og vonandi í sumar líka.
Ólafur Stefánsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga erfiða törn framundan í vor og vonandi í sumar líka. Nordic Photos / AFP

Eftir að Svíar tryggðu sér í dag fimmta sætið á EM í handbolta er ljóst að þeir verða í riðli Íslands í undankeppni Ólympíuleikanna.

Riðill Íslands í undankeppninni fer fram í Póllandi þar sem þessar þrjár þjóðir auk Argentínu keppa um tvö laus sæti á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.

Undankeppnin fer fram síðustu helgina í maí en keppt er í þremur riðlum. Þeir eru þannig skipaðir.

Undanriðill 1:

Pólland (2. sæti á HM)

Ísland (7. sæti á HM)

Argentína (3. sæti í Ameríkumótinu)

Svíþjóð (besta EM-þjóðin*)



Undanriðill 2:

Danmörk eða Frakkland (3. sæti á HM)

Spánn (6. sæti á HM)

Túnis (2. sæti í Afríkukeppninni)

Noregur (næstbesta EM-þjóðin*)

Undanriðill 3:

Frakkland eða Króatía (4. sæti á HM)

Rússland (5. sæti á HM)

Alsír (3. sæti í Afríkukeppninni)

Suður-Kórea eða Japan

Alls keppa tólf lið á Ólympíuleikunum en fjórar þjóðir hafa þegar tryggt sér þátttökurétt þar:

Gestgjafar: Kína

Heimsmeistarar: Þýskaland

Ameríkumeistarar: Brasilía

Afríkumeistarar: Egyptaland

Sex lið komast upp úr undankeppninni sem þýðir að tvö sæti eru enn laus. Annað fyrir verðandi Evrópumeistara og hitt fyrir sigurvegara undankeppninnar í Asíu.

Þar keppa aðeins tvö lið, Japan og Suður-Kórea, og mætast liðin í næstu viku.

Ef Þýskaland verður Evrópumeistari fær liðið sem verður í öðru sæti á EM í Noregi beinan þátttökurrétt á Ólympíuleikunum.

Þýskaland, Danmörk, Króatía og Frakkland keppa í undanúrslitum EM í dag.

* sem hafði ekki tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum eða undankeppni þeirra áður en EM í Noregi hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×