Handbolti

Vantaði neistann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Sveinsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Sigurður Sveinsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Við áttum í fullu tré við Spánverjana en mér fannst rosalega sorglegt að sjá hvernig þeir köstuðu þessu frá sér," sagði Sigurður Sveinsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Ísland tapaði í gær lokaleik sínum á EM í Noregi, fyrir Spáni. Ísland fékk tvö stig í milliriðlakeppninni og lauk keppni í ellefta sæti á mótinu sjálfu.

„Við vorum að spila þokkalega í fyrri hálfleik. Svo stóð ekki steinn yfir steini í upphafi síðari hálfleiks og þá var þetta bara búið."

„En þetta var fyrst og fremst okkar eigin klaufaskapur. Ég held að ég hafi talið átta misheppnaðar sendingar sem skiluðu sér í marki hjá Spánverjunum."

„Innst inni tel ég að leikmenn hafi hreinlega verið fegnir að þetta væri búið og skil ég það vel, fyrst þetta fór eins og það fór. Það var samt ótrúlegt að sjá hvað leikir liðsins voru kaflaskiptir. Ungverjaleikurinn var frábær lengst af og svo var liðið gjörbreytt gegn Spáni. Mér fannst vanta leikgleðina en þeir voru byrjaðir að brosa aftur gegn Ungverjum."

„Þeir hefðu getað bjargað andlitinu með því að vinna leikinn gegn Spáni og enda í 7.-8. sæti. Það er mikill munur á því og ellefta sæti."

Sigurður sagðist ekki vera ánægður með árangur íslenska liðsins á mótinu.

„Þetta var ekkert miðað við það sem lagt var upp með. Ég hefði kannski verið sáttur við ellefta sætið en ekki miðað við hvernig þeir spiluðu á mótinu. Þeir voru að tapa flestum sínum leikjum með 5-10 mörkum og það skil ég ekki. Munurinn er einfaldlega ekki svo mikill á liðunum. Þetta áttu allt að vera jafnir og spennandi leikir."

„Það datt líka ekkert með okkur í þessari keppni. Við nýttum dauðafærin illa og gerðum allt of marga tæknifeila í leikjunum. Þeir voru kannski 10-15 í hverjum leik en á HM í Þýskalandi voru þeir 5-6 í hverjum leik."

„En það góða við þetta er að þeir hafa engan tíma til að svekkja sig á þessu. Dagskráin er svo þétt. Nú taka við undankeppnir bæði fyrir Ólympíuleikana og HM í Króatíu. Það þýðir því ekkert annað en að horfa fram á veginn og takast á við næsta verkefni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×