Handbolti

Ísland keppir í undankeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslendingar geta þakkað Ivano Balic og félögum í króatíska landsliðinu fyrir sætið í undankeppni ÓL.
Íslendingar geta þakkað Ivano Balic og félögum í króatíska landsliðinu fyrir sætið í undankeppni ÓL. Nordic Photos / Bongarts

Þökk sé hagstæðum úrslitum á EM í handbolta í Noregi í dag er öruggt að Ísland keppir í undankeppni Ólympíuleikanna í Peking í vor.

Ísland þurfti að treysta á að eitthvert þeirra liða sem lenti í 2.-7. sæti á HM í Þýskalandi í fyrra myndi verða Evrópumeistari í ár. Þá myndi Ísland taka sæti viðkomandi lands í undankeppni ÓL.

Danmörk, Króatía, Frakkland og Þýskaland komust í undanúrslit í dag en þau voru á meðal efstu sjö liðanna á HM í fyrra.

Þýskaland varð heimsmeistari í fyrra en ef þeir verða einnig Evrópumeistarar færist sætið sem var frátekið fyrir Evrópumeistaranna til liðsins sem lendir í öðru sæti á EM.

Þar sem aðeins lið sem lentu í 2.-7. sæti á HM í fyrra komust í undanúrslitin er engin hætta á öðru en að Ísland taki sæti eitt þeirra liða í undankeppni ÓL, hvort sem Þýskaland verður Evrópumeistari eða ekki.

Frakkar tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitunum en í dag bættust Danir, Króatar og Þjóðverjar í hópinn.

Danir unnu fimm marka sigur á Slóvenum, 28-23, og Þjóðverjar unnu Svía í miklum spennuleik, 31-29.

Svo nú síðast í kvöld gerðu gestgjafar Noregs og Króatar jafntefli, 23-23, í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist í undanúrslitin. Króötum dugði hins vegar jafnteflið og komust því í undanúrslitin.

Staðan var jöfn, 19-19, þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Norðmenn höfðu verið með undirtökin seinni hluta fyrri hálfleiks og í upphafi þess síðari.

En Króatar tóku frumkvæðið í leiknum um miðjan síðari hálfleikinn og virtust ætla að sigla fram úr. Heimamenn létu þó ekki segjast og héldu í við geysisterkt lið Króata.

Króatar komust aftur í tveggja marka forystu, 22-20, þegar fáeinar mínútur voru til leiksloka. Norðmenn minnkuðu muninn í eitt mark og unnu svo boltann þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum.

Þeir létu hins vegar verja frá sér og það sló þögn á áhorfendur er Króatar héldu í sókn er rúm mínúta var eftir. En Steinar Ege, sem hefur verið frábær á þessu móti, varði frá Ivano Balic og Norðmenn jöfnuðu svo metin úr hraðaupphlaupi.

En Balic sannaði sig enn og aftur sem einn besti leikmaður heims er hann kom Króötum yfir, 23-22. Norðmenn jöfnuðu en það var ekki nóg - sem betur fer fyrir okkur Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×