Handbolti

Vörn og markvarsla eru lykilatriði

Aron Kristjánsson spáir í spilin fyrir EM sem hefst á fimmtudaginn
Aron Kristjánsson spáir í spilin fyrir EM sem hefst á fimmtudaginn

"Það má eiginlega segja að það hafi verið stígandi í liðinu í þessum tveimur leikjum og það fannst mér gott að sjá. Menn voru að finna sig betur og betur í vörninni," segir Aron Kristjánsson sérfræðingur Vísis á EM þegar hann er spurður út í leikina tvo við Tékka. 

"Mér leist alveg þokkalega á þessa leiki við Tékka. Fyrri hálfleikurinn í fyrri leiknum var mjög lélegur þar sem við nýttum dauðafærin alveg skelfilega og sóknarleikurinn mjög staður. Þar var það markvarslan hjá Roland sem hélt okkur inni í leiknum. Síðari hálfleikurinn var aftur á móti mikið betri þar sem við fengum mikið af hraðaupphlaupum og varnarleikurinn var ágætur," sagði Aron og sagðist sjá stíganda í liðinu.

"Mér fannst Vignir og Ásgeir vera að ná ágætlega saman í miðri 6-0 vörninni og Guðjón Valur reynist okkur líka betur sem bakvörður í þeirri vörn. Mér fannst Ólafur vera góður í þesum leikjum og sama með þá Snorra Stein og Guðjón Val.

"Þeir sem ég hefði viljað sjá sterkari voru Alexander Petersson og Jaliesky Garcia, sem var búinn að vera sterkur á æfingum. Alex var auðvitað búinn að vera meiddur og ég held að Garcia þurfi bara að komast aðeins betur inn í leik liðsins eftir langa fjarveru."

Aron var ánægður með mennina fyrir utan byrjunarliðið og segir þá hafa gert tilkall til meiri spilatíma á EM sem hefst á fimmtudaginn. 

"Þeir leikmenn sem menn hafa verið fyrir utan byrjunarliðið undanfarið voru að mínu mati að spila mjög vel í þessum leikjum. Bjarni Fritzson spilaði vel í fyrri leiknum eins og Vignir. Ásgeir Örn var fínn í báðum leikjunum og Hannes Jón blómstraði í seinni hálfleiknum á síðari leiknum."

"Það var virkilega gaman að sjá það og þetta sýnir okkur að kannski höfum við fleiri strengi til að spila á. Það gefur manni von um að Alfreð geti treyst fleiri leikmönnum á mótinu því álagið er gríðarlegt. Það er flestum erfitt að klára svona mót - meira að segja fyrir Guðjón Val."

"Mér fannst gaman að sjá markvörsluna í þessum leikjum og vonandi verður áframhald á því. Birkir hafði greinilega gott af því að spila þessa leiki út í Danmörku og það er mjög jákvætt."

Snorri mikilvægur 

"Maður spurði sig að því fyrir leikina hver ætti að leysa Snorra af á miðjunni og það er greinilega Ólafur sem á að gera það. Hann leysir það ágætlega og þegar svo er er hægt að setja Einar í skyttuna eða Ásgeir Örn. Það er því afar mikilvægt fyrir okkur að Snorri meiðist ekki á þessu móti."

"Varnarleikurinn hjá okkur fannst mér vera upp á við í þessum leikjum við Tékkana. Menn voru farnir að ná betur saman í vörninni eftir því sem á leið og mér finnst mikilvægt að þessi stígandi verði áfram, því að mínu mati er vörnin og markvarslan lykillinn hjá okkur á þessu móti."

Slæmt að missa Arnór 

"Það var vissulega slæmt að missa þá Arnór Atlason og Roland Eradze út úr hópnum fyrir mótið og sérstaklega held ég að liðið sakni Arnórs. Hann er gott mótvægi við þá Loga og Garcia í skyttustöðunni því hann er meiri spilari á meðan hinir tveir eru skyttur. Það hefði verið gott að hafa Arnór því hann hefði líka hugsanlega geta leyst Snorra eitthvað af hólmi í leikstjórnandastöðunni."

Eigum að vinna Svíana 

"Þetta verða gríðarlega erfiðir leikir hjá okkur í þessum riðli en leikurinn við Svía leggst mjög vel í mig og ég held að við vinnum hann. Svíarnir eru sterkir en ég held að við séum með betra lið. Þeir hafa verið í vandræðum með varnarleikinn hjá sér og segja það líka sjálfir. Ég hef trú á því að við klárum þann leik en ég held að Frakkarnir verði erfiðari. Það er klárt að við þurfum að fara með tvö stig með okkur í milliriðil ef við ætlum að spila um toppsæti og til þess verðum við að vinna Svíana."

Auðvitað er hægt að segja að Svíaleikurinn sé lykilleikur í þessu, en það getur ýmislegt gert í þessu eins og sýndi sig eftir tapið gegn Úkraínu í fyrrra. Svo það er kannski best að vera ekki með neinar yfirlýsingar um það." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×