Handbolti

Áttum svo sannarlega erindi á þetta mót

Elvar Geir Magnússon skrifar
Patrekur var aðstoðarmaður Kristjáns Halldórssonar með B-landsliðið.
Patrekur var aðstoðarmaður Kristjáns Halldórssonar með B-landsliðið.

„Norðmennirnir voru eitthvað ósáttir með að Ísland væri að senda B-landslið til leiks á þessu móti. Tölurnar tala sínu máli og við sýndum það að við áttum alveg erindi á þetta mót," sagði Patrekur Jóhannesson, einn af sérfræðingum Vísis um EM í handbolta.

Patrekur var í Noregi með B-landsliðinu sem tók þátt í Posten Cup æfingamótinu.

„Við unnum Portúgali og áttum að leggja aðallið Ungverja að velli á þessu móti. Plúsarnir voru alveg miklu fleiri en mínusarnir og strákarnir fengu þarna frábæra reynslu. Stemningin var mikil í hópnum og ljóst að þetta hefur bara jákvæð áhrif," sagði Patrekur.

„Leikur okkar gegn Ungverjalandi var hreint frábær ef undan er skilinn þessi fimm mínútna kafli undir lokin þar sem okkur tókst ekki að skora. Við vorum að spila virkilega vel fram að því."

Ísland tapaði með eins marks mun fyrir liði Ungverja en vann síðan Portúgal örugglega með fimm marka mun.

„Við bjuggum okkur undir erfiðan leik gegn Portúgal sem hafði tapað illa fyrir Noregi daginn áður. Við vissum því að þeir myndu mæta dýrvitlausir til leiks. Í þeim leik voru allir að skila sínu og Portúgalarnir héldu neyðarfund eftir leikinn," sagði Patrekur.

„Lokaleikurinn gegn Norðmönnum var mjög góður hjá okkur í 30 mínútur. Dómgæslan hallaði á okkur og við fengum brottvísanir fyrir litlar sakir. Ég talaði við félaga mína hjá norska liðinu sem tóku undir þetta og vorru hissa því þeir þurftu ekki á þessari hjálp að halda."

„Í seinni hálfleiknum keyrðu Norðmenn síðan framúr og Steinar Ege lokaði markinu. Þegar á heildina er litið voru jákvæðu punktarnir hjá okkur á mótinu um 95% á móti aðeins 5% neikvæðu."

„Þetta lið æfði bara saman eina helgi fyrir þetta mót og flestir leikmenn voru að spila saman í fyrsta sinn. Þetta heppnaðist því mjög vel miðað við allt," sagði Patrekur sem telur að þetta verkefni með B-landsliðið skili miklu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×