Handbolti

Tveggja marka sigur á Tékkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson var í eldlínunni með íslenska landsliðinu í dag.
Ólafur Stefánsson var í eldlínunni með íslenska landsliðinu í dag. Mynd/Pjetur

Ísland vann í dag góðan sigur á Tékkum í fyrri æfingaleik liðanna í Laugardalshöll, 32-30.

Staðan í hálfleik var 11-10, Tékkum í vil. Vísir var með beina textalýsingu frá leiknum sem má sjá hér að neðan.

Tölfræði leiksins:

Ísland-Tékkland 32-30 (10-11)

Gangur leiksins: 0-2, 2-2, 3-4, 6-6, 6-8, 9-9, 9-11, (10-11), 10-12, 12-12, 14-14, 17-14, 20-16, 23-19, 26-23, 29-26, 30-28, 30-30, 32-30.

Mörk Íslands (skot):

Ólafur Stefánsson 6/2 (12/2)

Guðjón Valur Sigurðsson 5/2 (8/2)

Logi Geirsson 5 (8)

Bjarni Fritzson 4 (4)

Vignir Svavarsson 4 (5)

Snorri Steinn Guðjónsson 3 (6/1)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 (3)

Róbert Gunnarsson 2 (4)

Alexander Petersson 1 (5)

Jaliesky Garcia 0 (3)

Varin skot:

Roland Eradze 10 (18/1, 56%, 24 mínútur)

Hreiðar Guðmundsson 6 (28/2, 21%, 36 mínútur)

Vítanýting: Skorað úr 4 af 5 vítum.

Fiskuð víti: 5 (Róbert 3, Bjarni 1 og Alexander 1). 

Mörk úr hraðaupphlaupum: 10 (Vignir 4, Guðjón Valur 2, Róbert 2, Ólafur 1 og Bjarni 1).

Utan vallar: 4 mínútur (Ólafur 1 og Ásgeir Örn 1). 

Markahæstir hjá Tékklandi: Michal Bruna, Petr Hruby og Jan Filip, allir fimm mörk. 

Mörk úr hraðaupphlaupum: 9.

Utan vallar: 6 mínútur. 

17.32 Ísland-Tékkland 32-30, lokastaða

Íslenska liðið skoraði síðustu tvö mörk leiksins. Fyrst Guðjón Valur úr víti, svo misstu Tékkar boltann í sinni sókn og Ísland náði að hanga á boltanum í rúma mínútu í síðustu sókn leiksins þar til Logi skoraði með góðu skoti þegar sex sekúndur voru til leiksloka.

Ólafur Stefánsson var langbesti maður íslenska liðsins þar til hann meiddist og gerðu hinir leikmenn liðsins vel að hafa innbyrt sigur eftir að Ólafur fór af velli.

Það tók að vísu nokkrar mínútur að pússa sóknarleikinn upp á nýtt en menn eins og Bjarni Fritzson og Logi Geirsson nýttu tækifæri sín mjög vel.

Roland Eradze átti einnig frábæran leik þar til hann meiddist seint í fyrri hálfleik en hann var með markvörslu upp á 56%. Hreiðar Guðmundsson varði sex skot eftir það.

Innkoma Vignis Svavarssonar í vörn íslenska liðsins var fín og hann skoraði fjögur góð mörk þar að auki.

Tölfræði leiksins birtist hér eftir örskamma stund.

17.26 Ísland-Tékkland 30-30

Tékkar hafa jafnað metin í fyrsta sinn síðan í upphafi síðari hálfleiks en það verður þó að skrifast á kæruleysi og óheppni í íslenska liðinu.

17.18 Ísland-Tékkland 28-25

Útlitið var mjög gott þar til Ólafur Stefánsson, langbesti maður íslenska liðsins í leiknum, fékk tveggja mínútna brottvísun og um leið högg á öxlina. Hann hefur verið hvíldur síðan þá og Tékkar hafa minnkað muninn mest í eitt mark en Ísland hefur skorað síðustu tvö mörk leiksins.

Jaliesky Garcia hefur fengið að spreyta sig undanfarnar mínútur og vægast sagt átt slakan dag. Innkoma Bjarna, Vignis og Loga hefur hins vegar verið mjög góð.

17.08 Ísland-Tékkland 21-17

Ef þetta heldur áfram á þessum nótum er íslenska liðið í fínum málum. Sóknarleikurinn er áfram öflugur og vörnin hefur staðið sína pligt þokkalega. Íslenska liðið hefur siglt fram úr því tékkneska og vonandi að það haldi sínu striki og klúðri ekki forskotinu.

17.01 Ísland-Tékkland 16-14

Fín byrjun á síðari hálfleik hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn hefur ekki verið mikið betri en í fyrri hálfleik en allt annað er að sjá til liðsins í sókninni. Leikmenn eru loksins byrjaðir að nýta færin sín og byrjaðir að keyra yfir tékkneska liðið.

16.40 Ísland-Tékkland 10-11, hálfleikur

Fyrri hálfleikur var slakur af hálfu íslenska liðsins, það verður að viðurkennast. Varnarleikurinn skánaði eftir því sem á leið en eftir ótrúlega frammistöðu Petr Stochl í marki Tékka á upphafsmínútunum hefur sóknarleikur íslenska liðsins verið langt frá sínu besta.

Það má bóka að Alfreð er þessa stundina að lesa yfir hausamótunum í búningsklefanum og má búast við breyttu íslensku liði í seinni hálfleik.

Staðan gæti þó verið verri þar sem Tékkar hafa misnotað bæði vítaköstin sín í leiknum til þessa.

Mörk íslenska liðsins:

Ólafur Stefánsson 3/2

Ásgeir Örn Hallgrímsson 1

Logi Geirsson 1

Guðjón Valur Sigurðsson 1

Snorri Steinn Guðjónsson 1

Alexander Petersson 1

Róbert Gunnarsson 1

Vignir Svavarsson 1

Varin skot:

Roland Eradze 10

Hreiðar Guðmundsson 2

Þess má svo geta að staðan í hálfleik í leik Portúgals og Ungverjalands á Posten Cup-mótinu í Noregi er 14-9, Portúgölum í vil.

16.33 Ísland-Tékkland 9-10

Síðustu mínútur hafa ekki gengið vel en íslenska liðið hefur gert allt of mikið af mistökum og hafa átt í vandræðum með tékknesku vörnina.

Markverðirnir hafa þó staðið sig mjög vel en Hreiðar kom inn fyrir Roland og varði fyrstu tvö skotin sem hann fékk á sig.

Logi, Vignir og Ásgeir hafa einnig fengið að spreyta sig í sókninni.

16.26 Ísland-Tékkland 6-6

Alfreð skipti í 5-1 vörn í leikhlénu og skipti þeim Sverre og Vigni inn á. Þeir eru í miðjublokkinu ásamt Alexander með Guðjón Val fremstan og hefur varnarleikurinn gengið mun betur.

Ísland komst í fyrsta skipti yfir í leiknum, 6-5, með hraðaupphlaupsmarki Guðjóns Vals en hornamaðurinn knái Jan Filip hefur reynst Íslendingum erfiðuir.

Sóknarleikurinn er ágætur en strákarnir þurfa að nýta færin sem þeir búa sér til miklu, miklu betur.

16.20 Ísland-Tékkland 3-4

Alfreð Gíslason hefur tekið leikhlé og freistað þess að koma betra skipulagi á leik íslenska liðsins. Bæði lið hafa farið heldur geyst áfram þessar fyrstu mínútur leiksins.

16.14 Ísland-Tékkland 2-3

Byrjunin á þessum leik hefur verið furðuleg. Staðan eftir rúmlega níu mínútna leik er 3-2 fyrir Tékkum en Petr Stochl í marki Tékka hefur farið hamförum. Hann hefur varið sjö skot til þessa.

Roland Eradze hefur einnig verið öflugur og varið fimm skot til þessa.

Byrjunarliðið í sókninni er þannig frá vinstri hornamanns til hægri hornamanns: Guðjón Valur, Garcia, Snorri, Ólafur og Alexander en Róbert er á línunni.

Snorri skiptir fyrir Ásgeir Örn þegar liðið stillir upp í vörn en hann er í miðjublokkinni ásamt Guðjóni Val. Ólafur og Alexander hægra megin við þá og Garcia og Róbert vinstra megin.

15.58

Leikurinn fer nú fljótt að hefjast og er gaman að sjá að það er þétt setið í Laugardalshöllinni og stemningin mjög góð.

Geir Magnússon sjónvarpsmaður var formlega tekinn inn í landsliðið fyrir leik en hann fer senn að hætta hjá Rúv eftir langan feril þar sem hann hefur lýst fjölda landsleikja í bæði sjónvarpi og útvarpi.

Landsmenn munu þó fá að njóta lýsinga hans á EM í Noregi sem verður hans síðasta stórmót í sínu starfi.

Leikmannahópurinn er eins og við var búist. Sverre Jakobsson er á sínum stað en hann hefur átt við veikindi að stríða og óvíst hversu mikið hann getur spilað í dag.

Þá er Arnór Atlason fjarverandi í dag vegna meiðsla.

HK-ingurinn Ólafur Bjarki Ragnarsson er þó heldur óvænt í hópnum en eitt laust sæti var í hópnum vegna þátttöku B-liðsins á Posten Cup-mótinu í Noregi.

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir:

1 Roland Valur Eradze

16 Hreiðar Levý Guðmundsson



Aðrir leikmenn:


2 Vignir Svavarsson

3 Logi Geirsson

4 Bjarni Fritzson

6 Ásgeir Örn Hallgrímsson

9 Guðjón Valur Sigurðsson

10 Snorri Steinn Guðjónsson

11 Ólafur Stefánsson

15 Alexander Petersson

17 Sverre Andreas Jakobsson

18 Róbert Gunnarsson

19 Jaliesky Garcia

29 Ólafur Bjarki Ragnarsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×