Handbolti

Yfirburðasigur Íslands á Portúgal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigfús Sigurðsson er meðal leikmanna íslenska liðsins í Noregi.
Sigfús Sigurðsson er meðal leikmanna íslenska liðsins í Noregi. Mynd/Pjetur

Íslenska B-landsliðið í handbolta vann auðveldan sigur á Portúgal, 32-27, á Posten Cup-mótinu í Noregi í dag.

Vísir var með beina textalýsingu frá leiknum sem má lesa hér fyrir neðan.

14.24 Ísland-Portúgal 32-27

Það var bara formsatriði að klára þennan leik enda voru Portúgalir löngu búnir að játa sig sigraða.

Sannarlega frábær leikur hjá íslenska liðinu. Einar Hólmgeirsson var valinn maður leiksins af mótshöldurum og skyldi engan undra, hann skoraði sex glæsileg mörk úr níu skotum og var markahæsti maður íslenska liðsins.

Björgvin Páll Gústavsson átti líka mjög góðan leik en hann varði fjórtán skot á þeim 52 mínútum sem hann lék. Samtals varði hann 41% þeirra skota sem á hann komu.

Varnarleikur íslenska liðsins var kaflaskiptur en vörnin smalll vel saman á köflum. Sóknarleikurinn var sömuleiðis misgóður en þegar íslenska liðið spilaði af yfirvegun fann það yfirleitt leið í gegnum vörn Portúgals.

Á morgun mætir Ísland heimamönnum frá Noregi og má búast við mun erfiðari leik þá. Vísir verður með beina lýsingu frá þeim leik.

Mörk Íslands:

Einar Hólmgeirsson 6 (9)

Hannes Jón Jónsson 5/4 (7/4)

Sturla Ásgeirsson 4 (4)

Baldvin Þorsteinsson 4 (5)

Arnór Gunnarsson 4 (5)

Andri Stefan 4 (8)

Heimir Örn Árnason 3 (3)

Kári Kristján Kristjánsson 1 (2)

Jóhann Gunnar Einarsson 1 (1)

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 14 (41%, 34/4, lék í 52 mínútur)

Birkir Ívar Guðmundsson 2 (22%, 9/2, lék í 8 mínútur)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 6 (Baldvin 3, Sturla 2 og Heimir Örn 1). 

Fiskuð víti: 4 (Kári 3 og Arnór 1). 

Utan vallar: 4 mínútur. 

14.16 Ísland-Portúgal 29-23



Leikurinn líður áfram ósköp rólega. Íslenska liðið hefur mjög góð tök á leiknum.

Portúgal náði að vísu að minnka muninn í tvö mörk í stöðunni 25-23 en nær komst liðið ekki.

Hornamennirnir Sturla og Arnór hafa verið sérstaklega atkvæðamiklir síðustu mínúturnar.

Birkir Ívar skiptir við Björgvin í markinu og fær að verja íslenska markið síðustu átta mínútur leiksins.

14.08 Ísland-Portúgal 22-19



Breytt skipulag hefur þýtt að íslenska liðið hefur verið eilítið stefnulaust í sínum leik. Munurinn er þó enn þrjú mörk.

Sigfús Sigurðsson kom inn á þegar um 20 mínútur voru til leiksloka í fyrsta sinn í leiknum.

13.57 Ísland-Portúgal 19-15



Íslenska landsliðið byrjaði seinni hálfleikinn mjög vel og komst í 15-9. Þá kom ágætur leikkafli hjá Portúgölum sem skoruðu fjögur mörk gegn einu og minnkuðu muninn í 16-13.

En Einar Hólmgeirsson hefur komið með hverja bombuna á fætur annarri. Portúgalska vörnin hefur átt engin svör við hans frammistöðu.

Íslenska liðið tók leikhlé þegar ellefu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þar endurskipulagði Kristján Halldórsson leik liðsins til að gefa fleiri leikmönnum tækifæri og prófa aðrar leikaðferðir.

13.36 Ísland-Portúgal 13-9, hálfleikur.

Ísland tók leikhlé þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og eftir það komu tvö hraðaupphlaupsmörk í röð. Portúgalar svöruðu um hæl en svo var ekkert skorað síðustu rúmar fjórar mínútur hálfleiksins.

Óhætt er að segja að ákveðin værukærð hafi gripið um sig í leik íslenska liðsins sem gerði talsvert af mistökum í sóknarleik sínum. En það er einnig ljóst að landslið Portúgal er hreinlega ekki í sama gæðaflokki og B-landslið Íslands.

Fyrri hálfleikurinn var á heildina er litið mjög góður hjá íslenska liðinu. Mistök liðsins mætti einfaldlega skrifa á að hópurinn spilaði saman í fyrsta sinn í gær og æfði saman í fyrsta sinn um síðustu helgi.

Mörk Íslands:

Baldvin Þorsteinsson 3

Einar Hólmgeirsson 3

Hannes Jón Jónsson 2/2

Arnór Gunnarsson 2

Kári Kristján Kristjánsson 1

Andri Stefan 1

Jóhann Gunnar Einarsson 1

Varin skot:

Björgvin Gústavsson 8 (47%)

13.28 Ísland-Portúgal 11-8



Sóknarleikur íslenska liðsins var frábær um miðbik hálfleiksins en botninn datt úr honum eftir því sem seig á síðari hluta hálfleiksins.

Björgvin Páll hefur þó staðið vaktina vel í marki Íslands og varið sjö skot þegar 23 mínútur eru liðnar af leiknum.

13.20 Ísland-Portúgal 9-4



Ísland komst í þriggja marka forystu eftir tólf mínútna leik en eftir það fóru bæði lið að spila óagaðan sóknarleik, þar til Einar Hólmgeirsson skoraði sitt annað mark í leiknum með glæsilegum þrumufleyg.

Einar skoraði svo annað glæsilegt mark, í þetta sinn með því að klóra sig í gegnum vörnina og skora úr afar erfiðri stöðu.

Forysta Íslands var því orðin fimm mörk og landslið Portúgals tók leikhlé.

13.10 Ísland-Portúgal 5-4

Leikurinn byrjaði heldur rólega en eftir að íslensku strákarnir hristu úr sér mesta skrekkinn fór vörnin í gang og markvarslan um leið.

Björgvin Páll Gústavsson stendur í íslenska markinu og hefur varið tvö skot til þessa.

Portúgal skoraði fyrsta mark leiksins og komst í 2-1 forystu. En þá komu þrjú íslensk mörk í röð áður en Portúgalar jöfnuðu metin á nýjan leik.

Andri Stefan kom svo Íslandi aftur yfir með góðu marki úr langskoti en það var hans fyrsta mark í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×