Handbolti

Klaufalegt tap Íslands í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson skoraði sjö mörk fyrir íslenska liðið.
Einar Hólmgeirsson skoraði sjö mörk fyrir íslenska liðið. Mynd/Vilhelm

Ísland tapaði afar klaufalega fyrir Ungverjalandi á Posten Cup-mótinu í Noregi. Ungverjar skoruðu síðustu fimm mörk leiksins og unnu, 28-27.

Einar Hólmgeirsson var markahæstur með sjö mörk í leiknum. Upplýsingarum markaskorara eru neðst í greininni.

Staðan í hálfleik var 15-13 fyrir Ungverja eftir að Ísland hafði leitt um miðbik hálfleiksins, 10-8.

Jafnræði var áfram með liðunum í síðari hálfleik og var staðan jöfn, 20-20, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Andri Stefan kom svo íslenska liðinu yfir, 21-20, með góðu marki og náði þar með frumkvæðinu fyrir Ísland.

Þegar um tíu mínútur voru eftir hófst frábær leikkafli hjá íslenska liðinu. Vörnin stóð vaktina afar vel og Birkir Ívar Guðmundsson varði nokkur mikilvæg skot í markinu.

Á þessum leikkafla náði Ísland mest fjögurra marka forystu, 27-23, með tveimur mörkum í röð frá Einari Hólmgeirssyni.

Þá komu hins vegar fjögur ungversk mörk í röð og voru þau í ódýrari kantinum. Kristján Halldórsson tók þá leikhlé er rúmar tvær mínútur voru til leiksloka.

Hannes Jón Jónsson átti skot í slána þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og gat þar með ungverska liðið endurheimt forystuna. Íslendingar fengu þá hraðaupphlaup eftir mistök í sóknarleik Ungverja en Baldvin Þorsteinsson lét verja frá sér í opnu færi.

Ungverjar fengu því aftur boltann og voru nú 40 sekúndur til leiksloka. Þeir skoruðu og voru því með pálmann í höndunum. Einar Hólmgeirsson átti síðasta skot leiksins en skotið missti marks.

Ungverjar skoruðu því síðustu fimm mörk leiksins og tryggðu sér þar með eins marks sigur.

Sigfús Sigurðsson lék í vörn íslenska liðsins og Einar lék einnig lengst af með liðinu. Báða skortir leikreynslu þar sem þeir hafa lítið leikið með sínum félagsliðum í haust.

Mörk Íslands:

Einar Hólmgeirsson 7

Hannes Jón Jónsson 5

Sturla Ásgeirsson 3

Arnór Atlason 3

Kári Kristján Kristjánsson 2

Andri Stefan 2

Baldvin Þorsteinsson 2

Heimir Örn Árnason 2

Jóhann Gunnar Einarsson 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×