Handbolti

Óttast ekki rassskellingu í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson er margreyndur landsliðsmaður.
Patrekur Jóhannesson er margreyndur landsliðsmaður.

„Ég er viss um að strákarnir í B-landsliðinu munu leggja sig 100 prósent fram í Noregi," sagði Patrekur Jóhannesson sem er nú staddur í Noregi með liðinu.

Patrekur er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta og mun segja sitt álit á íslenska liðinu bæði í aðdraganda mótsins sem og á meðan því stendur.

Hann mun gegna hlutverki aðstoðarmanns Kristjáns Halldórssonar sem er þjálfari B-liðsins í Noregi. Þar mætir liðið auk heimamanna liði Ungverjalands og Portúgals sem verða með sína sterkustu menn á æfingamótinu í Noregi um helgina.

„Þetta er frábært framtak hjá HSÍ að senda B-liðið á þetta mót. Þeir strákar sem hafa verið að banka á landsliðsdyrnar fá nú tækifæri til að kynnast umhverfinu, læra leikkerfi landsliðsins og það mun auðvelda þeim að koma upp í A-liðið seinna."

Nokkrir leikmenn sem verða í íslenska landsliðinu á EM í handbolta eru einnig í Noregi til að öðlast meiri leikæfingu.

„Til dæmis Einar Hólmgeirsson og Sigfús Sigurðsson hafa lítið spilað í haust með sínum liðum og þetta er kjörið tækifæri fyrir þá."

Liðið kom til Noregs í gær og mætti Ungverjalandi í sínum fyrsta leik í dag.

„Það er virkilega góð stemning í hópnum og allir staðráðnir í að sanna sig. Þetta er jú fyrst og fremst tækifæri fyrir þessa stráka að sýna hvað þeir geta. Þarna verða öll hin liðin með sína sterkustu leikmenn og það verður krefjandi fyrir strákana að fá að kljást við þá."

Hann óttast þó ekki að liðið verði rasskellt í Noregi. „Nei, alls ekki. Þetta er þó vissulega hópur sem hefur lítið spila saman en ég er handviss um að menn muni leggja sig alla fram. Það verður nauðsynlegt að sýna samstöðu og halda einbeitingunni."

„Það er einnig ljóst að ef A-liðið væri að spila á þessu móti væri það mjög krefjandi fyrir þá, hvað þá fyrir B-liðið. En tilgangurinn er að auka breiddina og ég held að þetta sé kjörið tækifæri til þess."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×